Hoppa yfir valmynd
25. mars 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Aðstoð við þolendur ofbeldis aukin á landsvísu

Ofbeldi
Ofbeldi

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að veita geðsviði Sjúkrahússins á Akureyri framlag upp á 10 milljónir króna til að fjármagna nýja stöðu sálfræðings sem veita á þolendum ofbeldis aðstoð og meðferð, svo sem vegna áfallastreituröskunar og þunglyndis. Landspítala var veitt sama fjárframlag og hefur spítalinn gengið frá ráðningu sálfræðings á geðsviði sem veita mun þolendum ofbeldis sambærilega þjónustu. Markmið aðgerðanna er að bæta og auka þjónustu við þolendur ofbeldis á landsvísu en heildarkostnaður þessara viðbótarframlaga er 20 milljónir króna.

„Við höfum, m.a. með starfsemi Barnahúss, séð hversu miklu máli skiptir að veita þolendum ofbeldis faglega meðferð við áfallastreituröskun og þunglyndi. Með því að styrkja sérstaklega geðsvið þessara tveggja aðalsjúkrahúsa okkar er það von mín að við getum hjálpað sem flestum á landinu öllu til að takast á við alvarlegar afleiðingar ofbeldis,“ sagði Eygló.

Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur einnig ákveðið að veita tveggja milljóna króna viðbótarframlag til meðferðarúrræðisins Karlar til ábyrgðar svo unnt sé að veita fleiri einstaklingum meðferð. Nýleg úttekt á úrræðinu hefur sýnt fram á marktækan árangur meðferðarinnar. Karlar til ábyrgðar er sérhæft meðferðarúrræði fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum en hefur nú verið útvíkkað þannig að það standi konum einnig til boða. Meðferðin felst í einstaklingsviðtölum og hópmeðferð hjá sálfræðingum og miðar að því að fá gerendur ofbeldis til að viðurkenna ábyrgð og breyta hegðun sinni. Verkefnið er staðsett hjá Jafnréttisstofu á Akureyri.

„Við munum aldrei ná að draga úr ofbeldi í samfélaginu nema með því að aðstoða gerendur til að láta af ofbeldinu. Aðsókn að verkefninu Karlar til ábyrgðar hefur aukist samfara samræmdum aðgerðum gegn ofbeldi í nánum samböndum og því var nauðsynlegt að auka fjárveitingar til verkefnisins,“ sagði Eygló.

Í velferðarráðuneytinu er nú unnið að heildstæðri aðgerðaáætlun gegn ofbeldi í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins um aðgerðir gegn ofbeldi. Í yfirlýsingunni er lögð rík áhersla á stuðning og vernd fyrir þolendur ofbeldis en jafnframt á nauðsyn þess að aðstoða gerendur við að horfast í augu við vandamálið svo draga megi úr ofbeldi í samfélaginu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum