Hoppa yfir valmynd
8. maí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Aukin þjónusta við þolendur ofbeldis

Bjarni Jónasson og Eygó Harðardóttir
Bjarni Jónasson og Eygó Harðardóttir

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og Bjarni Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri undirrituðu í gær samning um 10 milljóna króna framlag til geðsviðs sjúkrahússins til að fjármagna nýja stöðu sálfræðings í því skyni að bæta aðstoð og meðferð við þolendur ofbeldis. Ráðherra hefur einnig veitt Landspítala framlag í sama skyni.

Samningurinn var undirritaður í Seli þar sem rekin er dag- og göngudeildarstarfsemi geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri. Alice Harpa Björgvinsdóttir, yfirsálfræðingur við sjúkrahúsið, kynnti þar fyrir ráðherra þjónustu geðdeildarinnar og sagði frá því hvernig háttað er vinnu og verklagi í teymum sem starfa við sjúkrahúsið til að sinna þjónustu við fólk í kjölfar áfalla.

Alice Harpa BjörgvinsdóttirAlice segir miklu skipta að þolendur ofbeldis þurfi ekki að bíða lengi eftir meðferð, því takist að veita hana tímanlega gangi jafnan mun betur að takast á við vandann en ella. Því sé kærkomið að geta eflt starfsemina með ráðningu sálfræðings og bætt þannig þjónustuna, ekki aðeins á geðdeildinni, heldur einnig með þátttöku í teymisvinnu á sjúkrahúsinu og með auknu samstarfi við aðrar stofnanir sem sinna þessum málaflokki eins og Aflinu og Starfsendurhæfingu Norðurlands.

Í velferðarráðuneytinu er nú unnið að gerð áætlunar gegn ofbeldi í samræmi við samstarfsyfirlýsingu þriggja ráðherra sem undirrituð var í lok síðasta árs þar sem m.a. er áhersla lögð á stuðning og vernd fyrir þolendur ofbeldis. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra segist vona að með því að styrkja geðsvið aðalsjúkrahúsanna tveggja, þ.e. á Sjúkrahússins á Akureyri og Landspítalans vonist hún til að bæta megi þjónustu við þolendur ofbeldis á öllu landinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum