Hoppa yfir valmynd
20. maí 2015 Forsætisráðuneytið

Kynbundinn launamunur rakinn til kynjaskiptingar starfa á vinnumarkaði

Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti kynnti í morgun á fundinum Kyn, starfsframi og laun niðurstöður rannsóknarverkefna hópsins. Annars vegar er um að ræða fyrstu rannsókn, sem gerð hefur verið hér á landi á kynbundnum launamun, sem tekur til vinnumarkaðarins í heild og hins vegar rannsóknarskýrslu um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði.

Kynbundinn launamunur mælist 7,6%

Sigurður Snævarr hagfræðingur er höfundur skýrslu sem byggð er á rannsókn Hagstofu Íslands og aðgerðahópsins. Sigurður kynnti helstu niðurstöður rannsóknarinnar en hún byggist á miklum gagnagrunni um laun og margvíslega þætti um stöðu launamanna og tekur til áranna 2008 til 2013. Með tölfræðilegum aðferðum er metið hvaða áhrif einstaka þættir, s.s. kyn, menntun, aldur, starfsaldur og atvinnu- og starfsgrein, hafa á laun. Þegar horft er til alls gagnatímabilsins kemur í ljós að þannig metinn kynbundinn launamunur er 7,6% á vinnumarkaðnum í heild; meiri á almennum vinnumarkaði (7,8%) en á opinberum vinnumarkaði (7,0%).

2008 7,8%
2009 7,0%
2010 6,7%
2011 6,4%
2012 5,8%
2013 5,7%
Tafla 27. Mat á kynbundnum launamun eftir árum. Kynbundinn launamunur hefur minnkað samfellt á rannsóknartímabilinu 2008-2013 eða um 2,1 prósentustig.

Karlar semja um hærri laun

Rannsóknarskýrslan Staða kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði – staðreyndir og staða þekkingar staðfestir að enn er staða kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði, þrátt fyrir miklar framfarir, ólík. Dr. Katrín Ólafsdóttir, höfundur skýrslunnar, segir að konur séu líklegri til að vinna hlutastörf og hverfi frekar af vinnumarkaði til að sinna ólaunuðum umönnunarstörfum.  Einnig kemur fram að vinnuveitendur séu tregari til að fjárfesta í starfsþróun kvenna og í ljós kemur að körlum eru oftar boðin hærri laun. Konur eru líklegri til að taka fyrsta launatilboði á meðan karlar gera frekar gagntilboð um hærri laun. Launamunur getur því myndast í ráðningarferlinu og haldist alla starfsævina. Tekjur kvenna endurspeglast í lægri lífeyrisgreiðslum sem að stórum hluta eru greiddar úr sameiginlegum sjóðum. Að sögn Katrínar er því mikið þjóðhagslegt hagsmunamál að vinna að auknu jafnrétti á vinnumarkaði.

Á fundinum kom fram að greiningar beggja rannsókna leiða í ljós að kynbuninn launamun megi að verulegu leyti rekja til kynjaskiptingar starfa. Dr. Kolbeinn Stefánsson félagsfræðingur sagði í erindi sínu að niðurstöður rannsóknar um skiptingu heimilisstarfa á Íslandi sýni að líkt og á vinnumarkaði hafi dregið þar úr kynjamun. Verkaskiptingin ráðist þó enn af stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði þar sem karlar eru enn líklegri til að hafa hærri laun og vinna lengri vinnudag og sjái því síður um hefðbundin heimilisstörf.

Margir samverkandi þættir hafa áhrif á kynjajafnrétti

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði í ávarpi sínu að margir samverkandi þættir hafi áhrif á kynjajafnrétti á vinnumarkaði. „Staðalímyndir, kynbundið náms- og starfsval, verkaskipting á heimilum, fæðingarorlof, möguleikar kvenna og karla á samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs, völd og áhrif og mismunandi starfsþróunarmöguleikar eru meðal þeirra þátta sem móta ólíka stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði.“ Hún sagði jafnframt að rannsóknir sýni að stór hluti launamunarins sé innbyggður í hugarfar okkar og væntingar. „Hefðir og félagsmótun geta leitt til þess að störf karla og karlastétta séu meira metin en störf kvenna. Vanmat á einkum við um kennslu- og umönnunarstörf og önnur störf sem áður voru unnin inni á heimilum. Þá byggist hið rótgróna viðhorf um að eðlilegt sé að karlar hafi hærri laun en konur á þeirri gömlu hefð að karlar séu fyrirvinnur heimilisins. Þessi viðhorf eru ekki í samræmi við veruleika dagsins í dag og þau þarf að uppræta.“ Eygló fagnaði því að aðgerðahópur um launajafnrétti hefði með umræddum rannsóknarverkefnum fengið fram mikilvægar upplýsingar um kynbundinn launamun og stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði. Framundan sé vinna við stefnumótun í málaflokknum sem miði að uppbroti kynbundins vinnumarkaðar og því að auðvelda fólki samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.  Stefnumótun í málaflokknum verði byggð á niðurstöðum rannsóknarverkefnanna. 

Hér má nálgast efni fyrirlestra sem fluttir voru á morgunverðarfundi aðgerðahópsins:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum