Hoppa yfir valmynd
15. september 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Velferðarvá- Kynning á verkefnum Norrænu velferðarvaktarinnar

Norræna húsið
Norræna húsið

Kynningarfundur á verkefnum Norrænu velferðarvaktarinnar verður haldinn í Norræna húsinu fimmtudaginn 17. september kl. 12.00–13.15. Norræna velferðarvaktin er eitt verkefnanna í formennskuáætlun Íslands á vegum Norræna ráðherraráðsins og er þriggja ára rannsóknarverkefni sem fer fram árin 2014–2016. Markmið verkefnisins eru meðal annars að meta hvernig norræn velferðarkerfi eru undir það búin að mæta hvers konar vá með sérstaka áherslu á hlutverk félagsþjónustu, að finna betri leiðir til að mæla og fylgjast með velferð borgaranna, að rannsaka áhrif fjármálaþrenginga á norrænu velferðarkerfin og að stuðla að upplýstri stefnumótun í velferðarmálum.

Haldnar verða fjórar stuttar kynningar á áhugaverðum verkefnum og er dagskráin eftirfarandi:

Velferðarvá - hvernig á að bregðast við kreppu?

Ávarp ráðherra
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og samstarfsráðherra Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

Hamfarir og hlutverk félagsþjónustu
Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, greinir frá verkefni þar sem sérstök áhersla er lögð á hlutverk félagsþjónustu sveitarfélaga á tímum hamfara, hvernig megi samhæfa viðbrögð velferðarkerfa í kjölfar vár og efla viðnámsþrótt einstaklinga og samfélaga.

Norrænir velferðarvísar – mikilvægi vöktunar
Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, kynnir undirbúning við þróun norrænna velferðarvísa sem koma til með að lýsa þróun velferðar á Norðurlöndunum.

Fjölþjóðleg rannsókn á viðbrögðum við kreppum
Stefán Ólafsson, prófessor við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, fjallar um afleiðingar fjármálakreppa á Norðurlöndunum, viðbrögð stjórnvalda og árangur af þeim.

Efnahagskreppan 2008 og velferð almennings: Ísland í evrópskum samanburði
Agnar Freyr Helgason, doktor í stjórnmálafræði, greinir frá áhrifum kreppunnar 2008 á velferð almennings í Evrópu og helstu viðbrögðum evrópskra stjórnvalda við kreppunni.

Allir eru velkomnir og boðið verður upp á samlokur.
Vinsamlegast skráið þátttöku á netfangið [email protected].


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum