Hoppa yfir valmynd
16. október 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Viljayfirlýsing um framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks

Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri í velferðarráðuneytinu og Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar
Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri í velferðarráðuneytinu og Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar

Vinnumálastofnun verður ábyrg fyrir vinnumarkaðsúrræðum fyrir fatlað fólk samkvæmt viljayfirlýsingu sem að standa velferðarráðuneytið og Vinnumálastofnun annars vegar og Samband íslenskra sveitarfélaga hins vegar. Félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti yfirlýsinguna á fundi ríkisstjórnar í dag.

Við yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks til sveitarfélaganna í ársbyrjun 2011 var meðal annars samþykkt á Alþingi að Vinnumálastofnun yrði falið að annast framkvæmd atvinnumála fyrir fatlað fólk í samræmi við lög nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, og skyldi kostnaður vegna þess greiðast úr ríkissjóði. Skipuð var nefnd um framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks til að útfæra þessa ákvörðun en ekki náðist samstaða um lyktir. Málinu var þá vísað til verkefnisstjórnar sem unnið hefur að endurmati á yfirfærslu málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaganna. Viljayfirlýsingin sem nú hefur verið undirrituð um framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks byggist á niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar.

Karl Björnsson undirritar viljayfirlýsinguna fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélagaÁhersla er lögð á að litið verði á atvinnu- og hæfingartengda þjónustuþætti sem eina heild og að framkvæmd þeirra verði skilgreind sem vinnumarkaðsúrræði. Aðgengi að öllum atvinnutengdum aðgerðum verði þannig á sama stað, óháð því af hvaða ástæðum einstaklingar þurfa á þeim að halda. Þar sem vinnumarkaðsaðgerðir eru á verksviði Vinnumálastofnunar samkvæmt lögum, mun það falla í hlut Vinnumálastofnunar að taka við öllum umsóknum, meta færni einstaklinga og beina þeim á þær brautir sem best henta hverjum og einum eftir því sem kostur er.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni mun Vinnumálastofnun sjá um almennar vinnumarkaðsaðgerðir, verndaða vinnustaði, starfsþjálfun, atvinnu með stuðningi og aðra atvinnutengda endurhæfingu en sveitarfélögin annast framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða sem tengjast iðju og hæfingu og starfrækslu „blandaðra“ vinnustaða iðju, hæfingar og verndaðrar vinnu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum