Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2015 Forsætisráðuneytið

Fjölmiðlaviðurkenning Jafnréttisráðs

Viðurkenningarhafar ásamt ráðherra og Fanný Gunnarsdóttir, formanni Jafnréttisráðs
Viðurkenningarhafar ásamt ráðherra og Fanný Gunnarsdóttir, formanni Jafnréttisráðs

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, afhenti í gær viðurkenningu Jafnréttisráðs á sviði jafnréttismála vegna fjölmiðlaumfjöllunar um mál sem tengjast jafnrétti kynjanna. Viðurkenningin var veitt við lok Jafnréttisþings sem haldið var undir yfirskriftinni Kynlegar myndir – jafnrétti á opinberum vettvangi.

Jafnréttisráð óskaði eftir tilnefningum til fjölmiðlaviðurkenningar ráðsins í september sl. Auglýst var eftir tilnefningum í þremur flokkum: a) til fjölmiðils sem skarað hefur fram úr á sviði jafnréttismála, s.s. hvað varðar efnistök, umfjöllun og miðlun efnis, b) vegna þáttar, þáttaraðar, greinar eða annars afmarkaðs efnis þar sem jafnrétti er sérstakt viðfangsefni eða leiðarstef og c) til einstaklings sem með störfum sínum á fjölmiðli hefur unnið sérstaklega að jafnréttismálum.

Viðukenningar í fyrrnefndum flokkum hlutu eftirtaldir:

  • Ritstjórn Framhaldsskólablaðsins fyrir umfjöllun um jafnréttismál.
  • Halla Kristín Einarsdóttir fyrir heimildamyndina Hvað er svona merkilegt við það?
  • Sigrún Stefánsdóttir fyrir störf í þágu jafnréttis á fjölmiðlum.

Sérstök valnefnd var sett á fót til að ákveða hverjir skyldu hljóta fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs 2015. Í nefndinni sátu Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, fulltrúi Jafnréttisráðs, Arndís Þorgeirsdóttir, fulltrúi Blaðamannafélags Íslands, og Ragnar Karlsson, fulltrúi Háskóla Íslands. 

Eftirfarandi er rökstuðningur valnefndarinnar vegna viðurkenningar í hverjum flokki:

Fjölmiðill sem skarað hefur fram úr á sviði jafnréttismála, s.s. hvað varðar efnistök, umfjöllun og miðlun efnis.

Framhaldsskólablaðið er gefið út af Sambandi íslenskra framhaldsskólanema og kemur út fjórum sinnum á hverjum vetri. Blaðinu er dreift frítt í alla framhaldsskóla landsins, í alla háskóla landsins og á almenningsstaði á höfuðborgarsvæðinu og í stærri byggðalögum. Framhaldsskólablaðið er lifandi málgagn yngstu kynslóðarinnar og hefur beitt sér af krafti í umfjöllun um jafnréttismál, bæði í umfjöllun um jafnrétti kynjanna sem og réttindi minnihlutahópa á Íslandi. Á undanförnum misserum hafa birst langar og ítarlegar greinar og viðtöl um kvenréttindi og femínisma, kynjakvóta, #freethenipple hreyfinguna, kvennasögu og kosningarétt kvenna, kynjafræðikennslu á framhaldsskólastigi, drusluskömmun og druslugönguna, kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, réttindi fólks með fötlun, hinsegin fólks og flóttafólks. Framhaldsskólablaðið er öflug rödd í jafnréttisbaráttu samtímans, rödd sem vísar okkur veginn til bjartari framtíðar.

Þáttur, þáttaraðir, greinar eða annað afmarkað efni þar sem jafnrétti er sérstakt viðfangsefni eða leiðarstef.
Hvað er svona merkilegt við það? er vönduð og vel gerð heimildarmynd eftir Höllu Kristínu Einarsdóttur. Í myndinni er fjallað um sögu kvennaframboðanna á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Halla Kristín gerði einnig myndina Konur á rauðum sokkum og má segja að Hvað er svona merkilegt við það? sé nokkurs konar framhald þeirrar myndar. Hugsjónum og baráttugleði kvennanna sem stóðu í fararbroddi við stofnun kvennaframboðanna eru gerð góð skil í myndinni og Halla nær með vönduðu vali á myndefni, áhugaverðum og upplýsandi viðtölum að fanga stemninguna sem ríkti á þessum árum – baráttu sem oft einkenndist af húmor og frumlegum aðferðum. Hvað er svona merkilegt við það? segir frá mikilvægu tímabili íslenskrar stjórnmálasögu og er afbragðskynning og hvatning fyrir þær kynslóðir sem nú vaxa upp og lifðu ekki þessa tíma, og fyrir hina eldri er myndin ekki síður stórskemmtileg upprifjun á merkilegum tímum.

Einstaklingur sem með störfum sínum á fjölmiðli hefur unnið sérstaklega að jafnréttismálum
Sigrún Stefánsdóttir hefur átt farsælan feril í íslenskum fjölmiðlum, fyrst sem blaðamaður og ritstjóri og síðar sem fréttamaður, dagskrárgerðarkona og sem yfirmaður í útvarpi og í sjónvarpi. Sigrún var fyrst Íslendinga til að ljúka doktorsprófi í fjölmiðla- og boðskiptafræðum og jafnhliða störfum í fjölmiðlum hefur Sigrún lengi fengist við kennslu í blaða- og fréttamennsku. Í kennslu sinni hefur Sigrún ávallt lagt áherslu á að opna augu nemenda sinna fyrir ójöfnu hlutskipti kynjanna í fjölmiðlum. Auk fjölda þátta fyrir útvarp og sjónvarp hefur Sigrún lagt stund á margvísleg ritstörf þar sem baráttumál kvenna fyrir jafnrétti eru til umfjöllunar. Síðast sendi hún frá sér, í samstarfi við Eddu Jónsdóttur, bókina Frú ráðherra (2014) sem byggir á viðtölum við 20 íslenskar konur sem gegnt hafa embætti ráðherra.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum