Hoppa yfir valmynd
8. desember 2015 Forsætisráðuneytið

Launaþróun og launamunur kynja á almennum vinnumarkaði

Greining launamunar á almenna vinnumarkaðnum í skýrðan og óskýrðan mun.
Mynd: Greining launamunar á almenna vinnumarkaðnum í skýrðan og óskýrðan mun.

Launamunur kynja á almennum vinnumarkaði hefur lækkað um nærri helming á árabilinu 2000 – 2013 samkvæmt niðurstöðum könnunar sem aðgerðahópur um launajafnrétti lét gera á þróun kynbundins launamunar og launamyndunar á umræddu tímabili.

Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti kynnti í maí á þessu ári niðurstöður viðamikils rannsóknarverkefnis um launamun kynjanna sem Hagstofa Íslands vann fyrir aðgerðahópinn. Niðurstöðurnar voru kynntar á opnum fundi 20. maí, ásamt ýtarlegri skýrslu um rannsóknina.

Í sumar ákvað aðgerðahópurinn að gera ýtarlegri rannsókn á launaþróun og launamun kynja á almennum vinnumarkaði sem næði yfir lengra tímabil, þ.e. árabilið 2000 – 1013. Var þetta gert að frumkvæði Samtaka atvinnulífsins. Niðurstöðum þessarar rannsóknar hefur verið aukið við skýrsluna sem birt var í sumar, þ.e. viðauki 3: Launamyndun og kynbundinn launamunur á almennum vinnumarkaði 2000–2013

Greining á launamun á almenna vinnumarkaðnum er gerð með tölfræðilegum aðferðum. Óleiðréttur launamunur sýnir mun á meðallaunum karla og kvenna sem starfa á almennum vinnumarkaði. Með tölfræðilegum aðferðum er þess freistað að skýra þennan mun og fæst þá skýrður launamunur. Við skýringu á launamun eru lagðar til fjölmargar breytur  sem lýsa stöðu hvers launamanns á vinnumarkaði; hjúskaparstaða, aldur, menntun o.fl. ýtarleg grein er gerð fyrir þessu í skýrslu aðgerðahópsins. Hluti launamunarins er skýrður í greiningunni, en það sem eftir stendur er óskýrður launamunur sem rekja  má til kynferðis.

Helstu niðurstöður eru þessar:

  • Óleiðréttur launamunur á almennum vinnumarkaði hefur nánast helmingast eða minnkað úr 32% í upphafi tímabilsins í 18% í lok þess.
  • Skýrður launamunur hefur minnkað úr 22% í rösklega 10%. Þessar tölur eru til vitnis um að konur hafa sótt fram á vinnumarkaði og að munur karla og kvenna á vinnumarkaði hafi minnkað. 
  • Óskýrður launamunur á almennum vinnumarkaði hefur á hinn bóginn minnkað mun minna. Óskýrður launamunur jókst á árunum 2003 til 2007. Árin 2005–2007 mældist hann 7,3%. Í kjölfar hrunsins dró úr óskýrðum launamuni á ný og árin 2011–2013 var hann orðinn 5,4%, eða nokkru minni en í upphafi gagnatímabilsins.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum