Hoppa yfir valmynd
22. desember 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Fleiri börn öðlast rétt til gjaldfrjálsra tannlækninga

Bætt tannheilsa
Hjá tannlækni

Sex og sjö ára börn munu frá 1. janúar næstkomandi bætast í hóp þeirra barna sem eiga rétt til gjaldfrjálsra tannlækninga samkvæmt samningi Sjúkratrygginga Íslands og tannlækna frá árinu 2013. Þar með nær samningurinn til allra barna á aldrinum 6 – 17 ára, auk 3 ára barna.

Skilyrði fyrir því að barn eigi rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum er að barnið hafi verið skráð hjá heimilistannlækni með samning við Sjúkratryggingar Íslands.

Þann 15. desember sl. höfðu 55.555 börn verið skráð með heimilistannlækni.  Af þeim falla 42.372 börn undir samninginn. Alls eru um 80.000 börn yngri en 18 ára búsett á Íslandi, þar af eru 32.303 börn sem enn falla ekki undir samninginn vegna aldurs.  Heimtur hafa því verið góðar og hafa hæst farið yfir 96% í einum árgangi.

Sagt er frá þessu á vef Sjúkratrygginga Íslands. Þar kemur fram að viðgerðum í tönnun barna hefur fjölgað lítillega eftir gildistöku samningsins frá árinu 2013 en þess hafi verið vænst: „Ástæðan er sú að með samningnum er eftirlit með tannheilsu barna eflt og engin börn eiga að þurfa að fresta nauðsynlegri meðferð vegna kostnaðar. Sú uppsafnaða þörf, sem var fyrir hendi, verður ekki lengur til staðar eftir innleiðingu samningsins. Því má nú búast við fækkun tannviðgerða á ný, en samningurinn gildir til ársins 2019.“

Á vef Sjúkratrygginga er birt mynd sem sýnir þróun á fjölda barna sem leitað hafa til tannlæknis á árunum 1998 – 2014 og fjölda viðgerða hjá hverju barni að jafnaði á sama tímabili.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum