Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Félags- og húsnæðismálaráðherra styrkir þjónustu við þolendur ofbeldis

Félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að veita sjúkrahúsunum á Akureyri og í Reykjavík samtals tuttugu milljónir króna til að fjármagna stöður sálfræðinga sem sinna þjónustu við þolendur ofbeldis. Ráðherra veitti sjúkrahúsunum sambærilegan styrk í fyrra í þessu skyni.

Félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra kynntu fyrir rúmu ári samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Liður í yfirlýsingunni var að efna ti landssamráðs um ofbeldi í víðu samhengi og að undirbúa aðgerðaáætlun til fjögurra ára gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.

Á grundvelli þeirrar vinnu sem hófst á grundvelli samstarfsyfirlýsingarinnar ákvað Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, að veita í fyrra tíu milljónir króna til geðsviðs Landspítala og jafn háa fjárhæð til geðsviðs sjúkrahússins á Akureyri, til að fjármagna stöðu sálfræðings í því skyni að bæta aðstoð og meðferð við þolendur ofbeldis.

Við mótun þjónustunnar hefur áhersla verið lögð á aukna aðstoð, ráðgjöf og meðferð við þolendur eldri brota. Áskoranir hafa reynst margvíslegar þar sem áfallasaga þeirra sem í hlut eiga er oft flókin eftir að hafa verið beittir alvarlegu ofbeldi til fjölda ára án meðferðar en þá er ekki óalgengt að þolendur glími jafnt við líkamleg veikindi og geðræn vandamál.

Eygló Harðardóttir segir ljóst af reynslu liðins árs að brýn þörf hafi verið fyrir þá auknu þjónustu sem unnt var að veita á sjúkrahúsunum tveimur með þeim fjármunum sem settir voru í verkefnið á liðnu ári. Því sé mjög ánægjulegt að unnt hafi reynst að tryggja áframhaldandi fjármögnun verkefnisins á þessu ári.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum