Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Niðurstöðursem styðja áherslur í húsnæðismálum

Eygló Harðardóttir
Eygló Harðardóttir

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir niðurstöður könnunar UNICEF um fátækt barna á Íslandi styðja við áherslur sínar í húsnæðismálum. Skortur hjá börnum hafi sterka tengingu við aðstæður fólks í húsnæðismálum. Aukinn húsnæðisstuðningur við efnalitlar fjölskyldur geti því breytt miklu til hins betra.

UNICEF á Íslandi kynnti í dag nýja skýrslu sína: Réttindi barna á Íslandi: Börn sem líða efnislegan skort. Í skýrslunni er kynnt til sögunnar svokölluð skortgreining sem gengur út á að greina efnislegan skort meðal barna „en með henni hefur UNICEF mótað nýja leið til að greina skort meðal barna í efnameiri ríkjum“ eins og segir í skýrslunni.

Niðurstöður skýrslunnar byggjast á mælingum Hagstofu Íslands frá árinu 2014. Niðurstöðurnar sýna m.a. að skortur sé algengastur meðal barna sem eiga foreldra sem vinna minna en hálft starf eða eru atvinnulausir. Þá eru börn foreldra sem einungis eru með grunnmenntun líklegri á öllum sviðum til að líða skort en börn foreldra með háskólamenntun.

Mikill munur er á börnum leigjenda og börnum foreldra sem búa í eigin húsnæði og eru þau fyrrnefndu líklegri en önnur til að líða skort á öllum sviðum.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir niðurstöður skýrslu UNICEF gagnlegar og það sé mjög mikilvægt að stjórnvöld nýti þær til að beina aðgerðum sínum í þágu fjölskyldna og barnafólks að þeim sem helst þurfa á stuðningi að halda. Þess vegna hafi hún álitið mikilvægt að styrkja UNICEF við gerð skýrslunnar, líkt og gert var með samningi nýlega um 500.000 króna framlag ráðuneytisins.

„Það kemur eflaust engum á óvart að atvinna eða öllu heldur skortur á atvinnu ræður miklu um fátækt meðal barna. Það skiptir því miklu hvað atvinnuástand hefur batnað til mikilla muna á síðustu árum. Þessi sterka tenging við húsnæðisaðstæður kemur mér heldur ekki á óvart en niðurstaðan styrkir mig enn frekar í þeirri vissu að aðgerðir sem ég hef boðað á sviði húsnæðismála með frumvörpum sem Alþingi hefur nú til umfjöllunar eru mikilvægar og geta haft mikil áhrif til að draga úr fátækt og skorti hjá börnum. Sama máli gegnir um þær áherslur sem kynntar eru í tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu sem ég mun leggja fyrir Alþingi á næstunni.“

Velferðarráðuneytið og UNICEF hafa ákveðið að skoða sameiginlega hvort birta eigi skortgreiningu sem er sambærileg og sú sem kynnt var í dag með reglubundnum hætti til að fá gleggri mynd af þróun mála frá einum tíma til annars. Líkt og bent er á í skýrslunni er ekki hægt að alhæfa um þróun á skorti meðal barna þar sem gerður er samanburður milli áranna 2009 og 2014. Eygló segir að slíkur samanburður eigi tæpast rétt á sér en mestu máli skipti að horfa á niðurstöðurnar, taka þær alvarlega og gera allt sem hægt er til að útrýma  barnafátækt á Íslandi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum