Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Vinnufundur um stefnu í öldrunarmálum

Þungt hugsi
Þungt hugsi

Verkefnisstjórn á vegum heilbrigðisráðherra sem vinnur að úttekt á öldrunarþjónustu og greiningu á heilbrigðishluta þjónustu við aldraða, stóð fyrir fjölmennum vinnufundi í gær þar sem verkefnisstjórnin kynnti stöðuna á greiningarvinnu sinni og efndi til umræðu um ýmsar hliðar öldrunarþjónustunnar.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, skipaði verkefnisstjórnina á liðnu ári og fól henni að móta tillögur að stefnu ásamt aðgerðaáætlun um nauðsynlegar breytingar. Til fundarins í gær var boðað fagfólk sem starfar á sviði öldrunarþjónustu, fulltrúar aldraðra, rekstraraðilar öldrunarstofnana, stjórnmálamenn og fleiri sem á einhvern hátt tengjast málefnum aldraðra.

Í upphafi fundarins flutti heilbrigðisráðherra ávarp og fór yfir helstu áskoranir næstu ára í þessum málaflokki. Lagði hann áherslu á nauðsyn þess að auka fjölbreytni í þjónustu við aldraða, stuðla að heilsueflingu og auka forvarnarstarf til að bæta lífsgæði aldraðra og draga úr þörf fyrir stofnanaþjónustu. Fulltrúi verkefnisstjórnarinnar kynnti ýmsar tölulegar upplýsingar um öldrunarmál og öldrunarþjónustu, samanburð við önnur lönd og aðrar upplýsingar sem safnað hefur verið til að leggja grunn að stefnu til framtíðar.

Ragnar Þ. Guðgeirsson, formaður verkefnisstjórnarinnar, kynnti fyrir fundarmönnum fyrstu drög að stefnu sem fyrir liggja þar sem sett hefur verið fram framtíðarsýn með stefnumarkandi áherslum til ársins 2035.

Um fimmtíu manns sátu fundinn og tóku þátt í umræðuhópum þar sem rætt var um ýmsar hliðar sem snúa að heilbrigðisþjónustu við aldraða og veitingu þjónustunnar, líkt og fjallað er um í stefnudrögunum og varða framboð og fyrirkomulag þjónustunnar, fjárhagsleg málefni, innri ferla, aðstöðu, skipulag og mannauð. Tillögur og ábendingar sem fram komu í umræðuhópunum verða innlegg í vinnu verkefnisstjórnarinnar en stefnt er að því að hún ljúki störfum og skili tillögu að stefnu í byrjun mars næstkomandi.

Spáð og spekúlerað
Spáð og spekúlerað
Tillögur í mótun
Tillögur í mótun
Vinnuhópur um þjónustu við aldraða
Vinnuhópur um þjónustu við aldraða

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum