Hoppa yfir valmynd
20. október 2016 Forsætisráðuneytið

Framtíðarstefna í jafnlaunamálum kynnt á morgunverðarfundi 24. október

Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins kynnir tillögur um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum á morgunverðarfundi á Reykjavík Hilton Nordica, mánudaginn 24. október næstkomandi kl. 8.00–10.30.  

 

Sérstakur gestur fundarins er dr. Kjersti Misje Østbakken, rannsakandi við Social Research Institute í Osló. Kjersti hefur um árabil lagt stund á rannsóknir á sviði vinnumarkaðsfræða og jafnlaunamála. Í fyrirlestrinum veltir hún upp spurningunni um af hverju gangi eins hægt og raun ber vitni að útrýma kynbundnum launamun.  

Samhliða kynningu á tillögum aðgerðahópsins mun Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, opna vefsíðu jafnlaunastaðalsins og kynna nýtt jafnlaunamerki. Á fundinum verður jafnframt sagt frá tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins og forystufólk atvinnulífsins tekur þátt í pallborðsumræðum um hvernig hrinda megi tillögum um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum í framkvæmd.  

Verkefni aðgerðahópsins hafa meðal annars falist í því að vinna að samræmingu rannsókna á kynbundnum launamun, annast kynningu og fræðslu vegna innleiðingar jafnlaunastaðals, sinna upplýsingamiðlun og ráðgjöf um launajafnrétti og gerð tillagna um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum. Í maí 2015 kynnti hópurinn niðurstöður rannsóknarverkefna hópsins á fundinum Kyn, starfsframi og laun. Annars vegar er um að ræða fyrstu rannsókn sem gerð hefur verið hér á landi á kynbundnum launamun og tekur til vinnumarkaðarins í heild og hins vegar rannsóknarskýrslu um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Tillögur hópsins um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum byggjast á niðurstöðum rannsóknarverkefna hópsins.  

Burt með launamuninn!
Jafnrétti og jafnlaunamál á íslenskum vinnumarkaði

Morgunverðarfundur, 24. október 2016 kl. 08.00–10.30, á Reykjavík Hilton Nordica.  

Kynning á tillögum aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum. 

Fundarstjóri: Anna Kolbrún Árnadóttir, formaður aðgerðahóps um launajafnrétti.  

08.00–08.30 Skráning og morgunverður framreiddur. 

08.30–08.40 Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. Ávarp, opnun vefsíðu jafnlaunastaðalsins og kynning á jafnlaunamerki. 

08.40–09.00 Dr. Kjersti Misje Østbakken, Senior Research Fellow, Institute for Social Research Oslo. Slow Convergence in the gender pay gap: Empirical Evidence from Norway. 

09.00–09.15 Maríanna Traustadóttir, sérfræðingur í jafnréttismálum hjá ASÍ. Kynning á tillögum aðgerðahóps um launajafnrétti um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum.  

09.15–09.30 Guðný Einarsdóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Kynning á tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins.  

09.30–09.45 Pallborð: Reynslusögur þátttakenda í tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins.

Þátttakendur í pallborði:
Andri Ómarsson, verkefnisstjóri hjá Hafnarfjarðarbæ,
Edda G. Björgvinsdóttir, sviðsstjóri rekstrar- og upplýsingatækni Landsbókasafns Háskólabókasafns,
Sigríður Vilhjálmsdóttir, verkefnisstjóri mannauðssviðs VÍS,
Snorri Olsen tollstjóri.  

Umræðustjóri: Einar Mar Þórðarson, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. 

09.45–10.15 Hvernig á að hrinda tillögum um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum í framkvæmd? Pallborðsumræður með forystufólki atvinnulífsins.

Þátttakendur í pallborði: Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB,
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands,
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga,
Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu,
Þórður Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands,
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna. 

Umræðustjóri: Dr. Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. 

10.15–10.30 Fyrirspurnir og umræður. 

Morgunverðarhlaðborð er innifalið í þátttökugjaldi sem er 5.000 kr.
Morgunverður er framreiddur frá kl. 08.00. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum