Fréttir
  • OECD í Reykjavík
    OECD í Reykjavík

Sérfræðingar aðildarríkja OECD funda um jafnréttismál í Reykjavík

17/5/2017

Kynjasamþætting við alla stefnumótun og umbótastarf á sviði stjórnsýslu jafnréttismála er til umfjöllunar á fundi OECD og fjögurra hérlendra ráðuneyta um jafnréttismál í Reykjavík dagana 17.–19. maí. Samhliða er haldinn stofnfundur sérfræðihóps um kynjaða fjárlaga- og hagstjórnargerð.

Á sjötta tug sérfræðinga frá yfir 20 aðildarríkjum OECD sækja fundina. Á fundinum um umbætur á sviði stjórnsýslu jafnréttismála er fjallað um reynslu og samspil ólíkra stofnana og árangur sem leiða má af löggjöf og stefnumótun stjórnvalda, þjóðþinga, alþjóðastofnana og dómstóla á sviði jafnréttismála. Á stofnfundi sérfræðihóps um kynjaða fjárlagagerð verður farið vítt og breytt yfir stöðu og hindranir við innleiðingu kynjaðrar fjárlagagerðar á ólíkum stigum. Lagðar verða línur fyrir áframhaldandi samstarf og leitað leiða til að stuðla að enn frekari framþróun á þessu sviði. 

Frá fundi OECD í ReykjavíkÞorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, og Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, ávörpuðu fundargesti við upphaf fundarins í morgun. Ráðherra sagði í ávarpi sínu að framfarir á sviði jafnréttismála hefðu ekki komið til að sjálfu sér heldur væru þær afrakstur mikillar vinnu og baráttu kvenna í meira en 150 ár. Þorsteinn nefndi sömuleiðis árangur Íslands á heimsvísu í jafnréttismálum og sagði að sá árangur byggðist meðal annars á því að stjórnvöld væru meðvituð um að tryggja þyrfti jafnrétti með lögum. Nauðsynlegt væri að lögbinda jafnlaunavottun enda væri kynbundinn launamunur enn veruleiki á Íslandi þrátt fyrir skýran vilja löggjafans um launajafnrétti. Ráðherra sagði jafnframt mikla atvinnuþátttöku kvenna mikilvægan grundvöll hagsældar hér á landi. Í erindi sínu lagði Ragnhildur áherslu á mikilvægi samhæfðrar innleiðingar stjórnsýslunnar á umbótum á sviði jafnréttismála. Þá nefndi hún að ráðuneytisstjórar Stjórnarráðs Íslands hefðu í sameiningu undirritað yfirlýsingu um að fylgja jafnréttissáttmála UN Women, stofnunar Sameinuðu þjóðanna, um kynjajafnrétti og eflingu kvenna. Ráðuneytin ynnu í sameiningu að innleiðingu markmiða framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum sem samþykkt var á Alþingi í fyrra og endurspeglar áherslur jafnréttissáttmálans.

Efni fundanna byggist á tilmælum OECD frá árinu 2015 um kynjajafnrétti á opinberum vettvangi og gerð verkfærakistu um leiðir til að fylgja megi markmiðum þeirra eftir. Markmið samstarfs OECD við íslensk stjórnvöld sem teljast leiðandi á sviði jafnréttismála á alþjóðavettvangi er að fundirnir verði leiðarhnoða fyrir næstu skref ásamt efni sem auðveldi sérfræðingum þeirra að ljúka við verkfærakistuna og skýrslu um innleiðingu tilmælanna frá árinu 2015.

Til baka Senda grein