Fréttir
  • Klippt á borða
    Klippt á borða

Heilbrigðisráðherra við opnun Blóðskimunarseturs

19/5/2017

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra tók í gær þátt í formlegri opnun Blóðskimunarseturs, miðstöðvar rannsóknarinnar Blóðskimun til bjargar . Rannsóknin miðar að því að rannsaka áhrif skimunar fyrir forstigi mergæxlis til að bæta líf þeirra sem greinast og leita jafnframt lækninga við sjúkómnum.

Rannsóknin er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Landspítala og Krabbameinsfélags Íslands og er Blóðskimunarsetrið staðsett í húsnæði Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð. Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum leiðir rannsóknarhóp verkefnsisins sem fer með framkvæmdina. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands er verndari verkefnisins.

Nú þegar hafa um 75.000 manns skráð sig til þátttöku í rannsókninni sem er meira en helmingur þeirra sem rannsókninni er ætlað að ná til.

Óttarr Proppé og Sigurður Yngvi KristinssonÓttarr Proppé heilbrigðisráðherra flutti stutt ávarp við opnun setursins og klippti á borða til marks um formlega opnun þess ásamt Sigurði Yngva Kristinssyni.

Ráðherra sagði í ávarpi sínu ánægjulegt hvernig þetta þjóðarátak gegn mergæxlum dragi saman nokkra af þeim þráðum sem séu svo mikilvægir fyrir landsmenn sem samfélag:

„Í fyrsta lagi er það vísindastarfið, hin sífellda leit að nýrri þekkingu sem með einhverjum hætti mun bæta líf okkar - g markmið Blóðskimunar til bjargar er að leita leiða til að bæta lífsskilyrði, og helst finna lækningu fyrir, mergæxlissjúklinga.

Í öðru lagi er það heilbrigðiskerfið okkar sem teygir sig um allt landið og tryggir að einstaklingarnir geti fengið bót sinna meina þegar þess gerist þörf. Heilbrigðiskerfið mun njóta góðs af þessari mikilvægu rannsókn þegar fram líða stundir og koma til með að nýta niðurstöður hennar til þess að veita betri heilbrigðisþjónustu. Hið víðfeðma net heilbrigðisþjónustunnar er líka mikilvægur þáttur í þjóðarátakinu því  það skapar forsendur til þess að hægt sé framkvæma þessa mikilvægu rannsókn og þá umfangsmiklu söfnun blóðsýna sem hún kallar á.

Í þriðja lagi er það menntakerfið okkar sem er auðvitað grunnurinn að vísindastarfinu og heilbirgðiskerfinu.  Menntakerfið sér til þess að fólk hafi tækifæri til þess að sækja sér menntun á sviði heilbrigðisvísinda og skapar þannig jarðveg fyrir tvo fyrrnefndu þræðina til að dafna.

Blóðskimun til bjargar veitir líka mörgum háskólanemum tækifæri til að taka þátt í vísindastarfi á heimsmælikvarða.

Og síðast en ekki síst er það samtakamáttur okkar allra, sem byggjum þetta land, sem er svo tamt að sýna í verki þegar þörf er á.“

Það er í raun með algjörum ólíkindum hversu margir hafa skráð sig til þátttöku í Blóðskimun til bjargar en nú hafa um 75 þúsund manns af landinu skráð sig til þátttöku í áttakinu sem er meira en helmingur þeirra sem rannsóknin tekur til.

Þetta sýnir auðvitað betur en margt annað hvað vísindi, heilbrigðismál og menntun skiptir fólk miklu máli og að fólk er tilbúið að leggja sitt af mörkum til þessara mála þegar eftir því er kallað.

Í dag hefst nýr kafli hjá Blóðskimun til Bjargar með opnun móttökustöðvarinnar.

Hér verður tekið á móti þeim sem greinast með forstig mergæxlis og með mergæxli og þeim veitt ráðgjöf og aðstoð við að takast á við það.

Við vitum öll hversu erfitt það er að greinast með sjúkdóma og því skiptir sköpum að veita því fólki sem greinist góða og persónulega þjónustu.

Miðað við hversu vel Sigurður Yngvi Kristinsson og hans fólk hefur staðið að öllu hingað til þá er ég ekki í vafa um að hér verður fólk í góðum höndum.

Ég á því ekki annað eftir en að lýsa að móttökustöðin, Blóðskimunarsetrið, hefur nú formlega tekið til starfa.“

Til baka Senda grein