Fréttir
  • Ný og betri Frú Ragnheiður
    Ný og betri Frú Ragnheiður

Ný Frú Ragnheiður tekin í notkun

1/2/2017

Ráðherrar heilbrigðis- og menntamála ásamt borgarstjóranum í Reykjavík voru viðstaddir þegar Rauði krossinn í Reykjavík tók í notkun nýjan bíl til að sinna heilbrigðisaðstoð á götum borgarinnar. Bíllinn leysir af hólmi gömlu Frú Ragnheiði sem margir þekkja og mun bera nafn forvera síns. Frú Ragnheiði er ekið um götur borgarinnar sex sinnum í viku og sinna þrír sérhæfðir sjálfboðaliðar nálaskipta- og hjúkrunarþjónustu.

Þjónustan sem hér um ræðir hefur verið veitt allt frá árinu 2009. Nýja Frú Ragnheiður er stærri bíll en sá gamli, sérstaklega innréttaður fyrir verkefnið og auðveldar bæði sjálfboðaliðum Rauða krossins og skjólstæðingum þeirra að athafna sig.

Í Frú Ragnheiði er annars vegar starfrækt hjúkrunarmóttaka, þar sem einstaklingar geta komið og fengið heilbrigðisaðstoð eins og aðhlynningu sára, umbúðaskipti, blóðþrýstingsmælingu, saumatöku og almenna heilsufarsráðskoðun og heilsufarsráðgjöf. Hins vegar er boðið upp á nálaskiptaþjónustu, þar sem einstaklingar sem sprauta vímuefnum í æð geta komið og sótt sér hreinar nálar, sprautur, nálabox og annað sem þarf til að draga úr líkum á smiti.

Í október sl. veitti heilbrigðisráðherra Rauða krossinum í Reykjavík fimm milljónir króna til áframhaldandi vinnu við skaðaminnkandi verkefni í nafni Frú Ragnheiðar. Í samningi um framlagið er m.a. kveðið á um þjónustu alla daga vikunnar, fjölgun sjálfboðaliða og útgáfu bæklings um örugga sprautunotkun.

Aðstandendur og velunnarar Frú Ragnheiðar


 Á myndinni hér að ofan má sjá heilbrigðisráðherra Óttarr Proppé, fyrrum heilbrigðisráðherra og núverandi menntamálaráðherra Kristján Þór Júlíusson og borgarstjórann í Reykjavík, Dag B. Eggertsson, ásamt Sveini Kristinssyni formanni Rauða krossins á Íslandi, Árna Gunnarssyni formanni Reykjavíkurdeildarinnar, Þóri Guðmundsson forstöðumann Rauða krossins í Reykjavík og Svölu Jóhannesdóttur verkefnastýru og sjálfboðaliða.

Til baka Senda grein