Fréttir
  • Sjúkrabifreið
    Sjúkrabifreið

Ráðherra ræddi áherslur sínar á sviði sjúkraflutninga

15/4/2016

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra ræddi um menntun sjúkraflutningamanna, skilgreiningu þjónustuviðmiða í heilbrigðisumdæmum og fleira þessu tengt þegar hann ávarpaði 16. þing Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem haldið er í dag. Ráðherra sagði það afstöðu sína að leggja beri áherslu á að efla menntun sjúkraflutningamanna sem heilbrigðisstéttar og styrkja sem hluta af þjónustu heilbrigðiskerfisins:

"Markmiðið með öflugu og markvissu skipulagi sjúkraflutninga er að bráðaþjónusta sé tryggð og flutningur sjúkra og slasaðra sé sinnt með öruggum, faglegum og hagkvæmum hætti.

Tillaga til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2022 liggur nær fullsköpuð á skrifborðinu mínu og ég stefni á að kynna hana almenningi innan skammst. Þar er að sjálfsögðu vikið að sjúkraflutningum. En megin atriðin eru eftirfarandi.

Skilgreina þarf þjónustuviðmið sjúkraflutninga í hverju umdæmi þannig að horft sé til þess hvers konar sjúkraflutningaþjónusta þurfi að vera til staðar á hverjum stað í ljósi fjölda íbúa, umfangs sjúkraflutninga, fjölda ferðamanna, heibrigðisstofnana og hvaða heilbrigðisstarfsmenn komi að þjónustunni.

Nauðsynlegt er að efla enn frekar vettvangsliða sem öflugan hluta af heilbrigðiskerfinu þar sem það á við og tryggja hlutverk þeirra í kerfi sjúkraflutninga.

Efla þarf samræmda rafræna skráningu í sjúkraflutningum og tryggja að upplýsingar á vettvangi skili sér í sjúkraskýrslu á heilbrigðisstofnun. Ég mun á næstunni fela Embætti Landlæknis að koma með tillögur í þessum efnum í samráði við fagráð sjúkraflutninga.

Jafnframt þarf að horfa til meiri notkunar fjarþjónustu í sjúkraflutningum með aukinni tækni og búnaði en slíkt getur leitt til þess að meðferð geti hafist fyrr og aukið batahorfur sjúklings“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.

Til baka Senda grein