Fréttir
  • Reykjavík - Mynd: Johannes Jansson/norden.org
    Reykjavík - Mynd: Johannes Jansson/norden.org

Samningur um rekstur sjúkrahótels í Ármúla framlengdur

29/4/2016

Lokun sjúkrahótelsins í Ármúla í Reykjavík hefur verið frestað til 31. maí samkvæmt samkomulagi Sjúkratrygginga Íslands og Heilsumiðstöðvarinnar. Með þessu skapast aukið svigrúm til að finna þessari þjónustu farveg þar til nýtt sjúkrahótel verður opnað á næsta ári.

Samingur um rekstur sjúkrahótelsins í Ármúla hefði að óbreyttu runnið út 30. apríl. Sjúkrahótel er ætlað þeim sem þurfa að dvelja fjarri heimili sínu vegna rannsókna eða meðferðar. Annars vegar er um að ræða einstaklinga sem fyrst og fremst þurfa á dvalarstað að halda og hins vegar er úrræðið ætlað fólki sem jafnframt þarfnast hjúkrunar.

Framlenging samningsins tekur til þess hóps sem ekki þarfnast hjúkrunar og mun hótelið í Ármúla taka við þeim gestum til loka maí. Unnið er að lausn varðandi þjónustu við þennan hóp eftir þann tíma.

Landspítali annast dvalargesti sem þarfnast hjúkrunar frá 1. maí

Ákveðið hefur verið að Landspítali taki yfir þjónustu við þá sem ekki þurfa aðeins dvalarstað heldur einnig hjúkrunarþjónustu frá 1. maí næstkomandi. Gert er ráð fyrir að þetta fyrirkomulag verði haft á þar til að nýtt sjúkrahótel sem verið er að byggja á lóð Landspítala við Hringbraut tekur til starfa í apríl á næsta ári.

Til baka Senda grein