Fréttir
 • Ávana- og fíkniefni
  Ávana- og fíkniefni

Skýrsla um leiðir til að draga úr skaðlegum áhrifum vímuefnaneyslu í íslensku samfélagi

30/8/2016

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur lagt fram á Alþingi skýrslu með tillögum um endurskoðun stefnu í vímuefnamálum til að draga úr skaðlegum áhrifum vímuefnaneyslu í íslensku samfélagi.

Skýrslan er gerð á grundvelli ályktunar Alþingis frá í maí 2014 þar sem Alþingi fól ríkisstjórninni að „endurskoða stefnu í vímuefnamálum á grundvelli lausnamiðaðra og mannúðlegra úrræða, á forsendum heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild“.

Heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp í þessu skyni með fulltrúum Embættis landlæknis, SÁÁ, ríkislögreglustjóra, geðsviðs Landspítala, Rauða krossi Íslands og velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Ráðherra skipaði Borgar Þór Einarsson formann nefndarinnar.

Verkefni starfshópsins samkvæmt þingsályktuninni voru að:

 • gera úttekt á gildandi lagaumhverfi svo afmarka megi viðfangsefnið nákvæmlega og undirbúa lagabreytingar og/eða nýja löggjöf,

 • líta til löggjafar annarra ríkja þar sem horfið hefur verið frá refsistefnu tengdri neyslu ólöglegra vímuefna og tillagna alþjóðlegra nefnda og stofnana á sviði rannsókna í forvörnum gegn vímuefnaneyslu,

 • skapa heildstæða stefnu, sem leggur höfuðáherslu á mannúðlega nálgun og vernd mannréttinda, sem dregur úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu og með því stuðla að auknu trausti jaðarhópa til samfélagsins og þeirra stofnana sem eiga að veita þeim þjónustu og skjól.

Í samantekt skýrslunnar kemur fram sú afstaða starfshópsins að fara eigi varlega í breytingar og gæta sérstaklega að því sem vel hefur tekist á umliðnum árum og áratugum. Tillögur hópsins miði að því að draga sem mest úr óæskilegum áhrifum núverandi stefnu án þess að henni sé kollvarpað í einu vetfangi. Eftirtaldar eru tillögur starfshópsins en nánari grein er gerð fyrir hverri þeirra í skýrslunni til Alþingis:

 1. afnám fangelsisrefsinga fyrir vörslu á neysluskömmtum,

 2. smávægileg fíkniefnabrot fari ekki á sakaskrá,

 3. einungis mæling á blóði verði látin gilda um vímuefnaakstur,

 4. fjölgun afeitrunarplássa fyrir fólk í vímuefnavanda og fjölbreyttari úrræði fyrir ólíka hópa,

 5. bætt aðgengi að hreinum sprautubúnaði og efld og gjaldfrjáls nálaskiptaþjónusta,

 6. lágmarkskröfur verði settar til að tryggja gæði meðferðar fólks í vímuefnavanda,

 7. einstaklingum í vímuefnavanda verði boðin skimun fyrir HIV og lifrarbólgu C þeim að kostnaðarlausu,

 8. rannsökuð verði þörf fyrir uppsetningu neyslurýma fyrir þá sem sprauta sig með vímuefnum,

 9. heilsugæsla verði gjaldfrjáls fyrir jaðarsetta hópa eins og heimilislausa og fólk sem neytir fíkniefna,

 10. stofnuð verði fastanefnd sem verði samráðsvettvangur vegna vímuefnamála og heilbrigðisráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í vímuefnamálum,

 11. föngum í vímuefnaneyslu verði tryggð sömu réttindi til forvarna, meðferðar og skaðaminnkunar og öðrum,

 12. rannsókna- og forvarnastarf verði eflt til að draga úr og koma í veg fyrir vímuefnaneyslu.

Til baka Senda grein