Fréttir
  • Fundur um svæðisbundið samráð gegn ofbeldi
    Fundur um svæðisbundið samráð gegn ofbeldi

Svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi

14/6/2016

Um þrjátíu manns komu saman á Akureyri  í gær til að ræða kosti og möguleika svæðisbundins samstarfs til að vinna gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Stýrihópur þriggja ráðuneyta um landssamráð gegn ofbeldi efndi til fundarins en fyrirhugað er að halda sambærilega fundi um allt land í þessu skyni.

Til fundarins voru boðaðir fulltrúar sveitarstjórna á Norðurlandi eystra, fulltrúar þjónustusviða sveitarfélaganna, löggæslu og heilbrigðisþjónustu. Einnig sátu fundinn fulltrúar frjálsra félagasamtaka, Rannsóknamiðstöðvar  gegn ofbeldi  og fulltrúar ríkisstofnana á svæðinu. 

Viðfangsefni fundarins byggði á samstarfsyfirlýsingu félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra um aðgerðir gegn ofbeldi en samstarf í krafti þeirrar yfirlýsingar á landsvísu hófst formlega í lok október á liðnu ári.

Markmiðið er að efla aðgerðir gegn ofbeldi í íslensku samfélagi með áherslu á að bæta verklag og samvinnu allra sem geta lagt hönd á plóginn til að draga úr ofbeldi, meðal annars með því að auka forvarnir og fræðslu til barna og þeirra sem vinna með þeim, hjá réttarvörslukerfinu og meðal almennings. Stýrihópurinn vinnur nú að aðgerðaáætlun á þessu sviði þar sem gert er ráð fyrir tillögum um svæðisbundið samráð. 

Vakning, viðbrögð og valdefling

Tilgangur fundarins á Akureyri var þríþættur:  Í fyrsta lagi að kynna fyrir fólki samstarfsyfirlýsingu ráðherranna, í öðru lagi að hlusta á raddir heimamanna um aðgerðir gegn ofbeldi, hvað hafi gengið vel og hvað megi bæta og í þriðja lagi að bera undir hópinn tillögu að samstarfssvæði sem næði frá  Siglufirði til Langaness.  Margt bar á góma, góðu samstarfi var lýst milli lögreglunnar og félagsþjónustunnar undir heitinu Saman gegn ofbeldi og Gæfusporinu hrósað sem framúrskarandi úrræði fyrir fullorðna sem hafa orðið fyrir ofbeldi í æsku. Fundarmenn voru sammála um að allir gætu haft gagn af auknu samstarfi. Rætt var um þörf fyrir meiri og aðgengilegri upplýsingar og kosti þess að hinar dreifðu byggðir ættu í  meira samstarfi við þau svæði þar sem fleira fagfólk væri til staðar á hverjum tíma. Fundarmönnum leist vel á að afmarka svæðið við Norðurland eystra.

Framundan er að funda með lykilfólki á öllum svæðum landsins með það að markmiði að leggja til svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi og hefur stýrihópurinn flokkað viðfangsefnið í þrjú svið: VAKNING: forvarnir og fræðsla, VIÐBRÖGÐ: verklag og málsmeðferð og VALDEFLING: Stuðningur í bráð og lengd í kjölfar ofbeldis.

 

Til baka Senda grein