Fréttir
  • Hvatningarverðlaunahafar ásamt ráðherra
    Hvatningarverðlaunahafar ásamt ráðherra

Tækifæri til betri heilbrigðisþjónustu

12/5/2016

Skýrari verkaskipting í heilbrigðiskerfinu og aukin samvinna og samráð milli stofnana eru mikilvægir liðir í því að bæta heilbrigðisþjónustuna. Heilbrigðisráðherra gerði þetta meðal annars að umfjöllunarefni þegar hann ávarpaði ársfund Sjúkrahússins á Akureyri sem haldinn var í gær. 

„Tækifæri til betri heilbrigðisþjónustu“ var yfirskrift fundarins og sagði ráðherra það vel valið og falla að þeim áherslum sem hann hefði lagt með þeim verkefnum sem hann hefði sett á oddinn síðustu ár. Í því sambandi nefndi hann m.a. vinnu við samtengda rafræna sjúkraskrá, breytt fyrirkomulag fjármögnunar í heilsugæslunni, nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisjónustu sem setur þak á hámarksútgjöld sjúklinga o.fl.

Ráðherra ræddi sérstaklega um þörf fyrir skýrari verkaskiptingu í heilbrigðiskerfinu til að gera kerfið notendavænna og skilvirkara. Það verði að vera alveg skýrt hvaða þjónustu fólk eigi að geta fengið í héraði og sömuleiðis hvert eigi að vísa sjúklingum sem þarfnast sérhæfðrar þjónustu: „Við búum við aðstæður sem krefjast þess að heilbrigðiskerfið virki sem samhæfð heild. Hver stofnun eða starfseining þarf að hafa skýrt hlutverk og sinna því sem hún gerir best og þarna á milli verður að vera náin samvinna og samráð.  Ég hef lagt á þetta mikla áherslu frá upphafi ráðherratíðar minnar. Okkur miðar í rétta átt en það skortir þó enn töluvert á samvinnu milli stofnana heilbrigðiskerfisins. Mér finnst blasa við að huga þurfi betur að þessu gangverki og sjá til þess að tannhjólin snúist viðstöðulaust þannig að sjúklingarnir verði ekki fórnarlömb kerfislægra gangtruflana. Ennfremur þarf að vinna markvisst að því að tryggja öllum aðgang að nauðsynlegri sérfræðiþjónustu, hvort heldur er innan opinberra stofnana eða þjónustu á vegum einkaaðila sem uppfylla kröfur um aðgengi, öryggi  og gæði þjónustunnar.“

Ráðherra ræddi einnig um þau tækifæri sem felast í nýjustu tækni á sviði fjarlækninga við veitingu heilbrigðisþjónustu: „Fyrr i dag tók ég við skýrslu starfshóps sem ég fól að móta stefnu og aðgerðaáætlun til eflingar fjarheilbrigðisþjónustu undir styrkri forystu Dr. Eyjólfs Guðmundssonar. Ég hlakka til að kynna mér í þaula tillögur hópsins og er sannfærður um að þær munu gefa okkur tækifæri til að efla til muna heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, ekki síst í hinum dreifðari byggðum.“

Á ársfundinum voru veitt sérstök hvatningarverðlaun Sjúkrahússins á Akureyri og féllu þau í hlut þverfaglegs samstarfshóps sem vinnur að átaksverkefni um að stytta biðlista vegna sjúklinga sem bíða eftir gerviliðaaðgerðum og augasteinsaðgerðum. Átaksverkefnið er unnið í samkvæmt samningi sem ráðuneytið gerði við Sjúkrahúsið á Akureyri og fleiri stofnanir fyrir skömmu. Á meðfylgjandi mynd má sjá ráðherra með handhöfum hvatningarverðlaunanna.

Til baka Senda grein