Fréttir

Umsækjendur um stöðu forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða

26/8/2016

Sex sóttu um embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða sem velferðarráðuneytið auglýsti laust til umsóknar 6. ágúst síðastliðinn. Einn umsækjenda dró umsókn sína til baka.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða starfar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Heilbrigðisstofnunin veitir almenna heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða sem nær yfir sveitarfélögin Vesturbyggð, Tálknafjarðarhrepp, Ísafjarðarbæ, Bolungarvíkurkaupstað og Súðavíkurhrepp. Þá annast stofnunin starfsnám í heilbrigðisgreinum og starfar í tengslum við háskóla á sviði fræðslumála heilbrigðisstétta og rannsókna í heilbrigðisvísindum. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er með fjölmennustu vinnustöðum á Vestfjörðum þar sem starfa að jafnaði um 250 manns í um 150 stöðugildum og er ársvelta stofnunarinnar um 1,9 milljarðar króna.

Forstjóri ber ábyrgð á að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf sem ráðherra setur honum. Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi og þjónustu stofnunarinnar, að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.

Umsækjendur um stöðu forstjóra eru eftirtaldir:

  • Drífa Sigfúsdóttir, viðskiptafræðingur
  • Gunnar Þórðarson, stöðvarstjóri
  • Gylfi Ólafsson, sjálfstætt starfandi heilsuhagfræðingur
  • Kristín B. Albertsdóttir, forstjóri
  • Valbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri

Þriggja manna nefnd sem skipuð er af heilbrigðisráðherra í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu metur hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana. 

Til baka Senda grein