Fréttir
  • Félags- og jafnréttismálaráðherra ræðir um jafnlaunastaðalinn á ráðstefnunni í Brussel
    Félags- og jafnréttismálaráðherra ræðir um jafnlaunastaðalinn á ráðstefnunni í Brussel

Vel sótt ráðstefna í Brussel um íslenska jafnlaunastaðalinn

10/3/2017

Hátt í hundrað manns sóttu ráðstefnu um jafnlaunastaðalinn sem haldin var í aðsetri EFTA í Brussel í gær að frumkvæði íslenska sendiráðsins. Félags- og jafnréttismálaráðherra var meðal frummælenda á ráðstefnunni sem haldin var í tengslum við alþjóðlegan baráttudag kvenna.

Jafnrétti kynjanna er ekki einungis réttlætismál, heldur brýn efnahagsleg nauðsyn og snýst um almenna skynsemi sagði Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra meðal annars þegar hann kynnti jafnlaunastaðalinn og hvers vegna íslensk stjórnvöld ætla að lögfesta jafnlaunavottun. Hann lagði áherslu á að innleiðing staðalsins væri liður í því markmiði að útrýma kynbundnum launamun og jafnframt að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sem kveða á um að greiða beri einstaklingum sömu laun fyrir sömu og jafnverðmæt störf.

Á ráðstefnunni var sagt frá reynslu VÍS og Tollstjóraembættisins af innleiðingu jafnlaunastaðalsins, en þessir vinnustaðir tóku þátt í tilraunaverkefni um notkun hans á vegum aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti. Í lok ráðstefnunnar fóru fram pallborðsumræður með þátttöku fulltrúa frá Samtökum evrópskra atvinnurekenda, Staðlaráði Íslands, Evrópska viðskiptaráðinu og Evrópusamtaka fyrirtækja með opinbera eignaraðild.Pallborðsumræður um jafnlaunastaðalinn

Margvíslegur ávinningur af innleiðingu jafnlaunastaðals

Fulltrúar atvinnurekenda lýstu áhyggjum af því að innleiðing jafnlaunavottunar gæti verið íþyngjandi en aftur á móti kom fram í erindum fulltrúa þeirra sem tekið hafa þátt í innleiðingu staðalsins að að þrátt fyrir að töluverð vinna fylgdi verkefninu fylgdi því margvíslegur ávinningur og nefndu þar m.a. minni starfsmannaveltu, gegnsærri launasetningu, aukna yfirsýn og færni stjórnenda við mótun launastefnu og launasetningu og jákvæðari fyrirtækjamenning.

Í pallborðsumræðum kom meðal annars skýrt fram það sjónarmið að ótækt væri að bíða eftir því að launamunur kynjanna jafnaðist út af sjálfu sér. Miðað við mjög hægfara þróun í þá átt væru sértækar aðgerðir nauðsynlegar líkt og fælust í jafnlaunastaðlinum og lögfestingu jafnlaunavottunar. Með þessu móti væri jafnframt fylgt eftir alþjóðlegum samþykktum á sviði jafnréttis- og mannréttindamála og unnið í samræmi við brýna nauðsyn Evrópuþjóða um að nýta menntun og mannauð kvenna og karla til jafns í þágu efnahagslegra framfara.

Stefna um samhæfingu fjölskyldu- og atvinnulífs

Á ráðstefnunni um jafnlaunastaðalinn tók yfirmaður skrifstofu mannréttindamála hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til máls og kynnti áform framkvæmdastjórnarinnar um nýja stefnu um samhæfingu fjölskyldu og atvinnulífs sem hefur m.a. það markmið að auka atvinnuþátttöku kvenna og draga úr launamun kynjanna í Evrópu.

 Ráðherra ásamt íslensku þátttakendunum í umræðum

 

Til baka Senda grein