Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi um flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaganna

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðra vegna flutnings málaflokksins til sveitarfélaganna hefur verið lagt fyrir Alþingi. Mælt var fyrir frumvarpinu í dag hefur því verið vísað til umfjöllunar hjá félags- og tryggingamálanefnd þingsins.

Samkvæmt frumvarpinu flyst ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fólk með fötlun til sveitarfélaganna 1. janúar 2011. Sveitarfélögin munu bera ábyrgð á gæðum þjónustunnar og kostnaði vegna hennar, nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum. Þau skulu einnig annast innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar. Frumvarpið er byggt á samkomulagi ríkisstjórnar Íslands og sveitarfélaganna um flutning faglegrar og fjárhagslegrar ábyrgðar á framkvæmd þjónustu til sveitarfélaganna.

Yfirstjórn málefna fatlaðra verður hjá velferðarráðuneytinu og mun ráðherra bera ábyrgð á opinberri stefnumótun í málefnum fatlaðra sem unnin skal í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Ráðherra hefur jafnframt eftirlit með framkvæmd laganna, þar á meðal að þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaga og annarra aðila samkvæmt lögum þessum sé í samræmi við markmið laganna og reglugerða og reglna sem á þeim byggjast - og að réttindi fatlaðs fólks séu virt. Markmið eftirlitsins er meðal annars að tryggja samræmda þjónustu við fatlað fólk og er í frumvarpinu kveðið á um að ráðherra hafi umsjón með gerð þjónustu- og gæðaviðmiða í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. 

Frumvarpið felur í sér viðamestu endurskipulagningu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá því að grunnskólarnir voru fluttir til sveitarfélaganna árið 1996. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum