Hoppa yfir valmynd
2. desember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Alþjóðlegur dagur fatlaðra

Alþjóðlegur dagur fatlaðra er er á morgun. Hann hefur verið haldinn 3. desember ár hvert frá því að Sameinuðu þjóðirnar stóðu fyrir alþjóðlegu ári fatlaðs fólks árið 1981. Markmið alþjóðlegs dags fatlaðra er að auka skilning á aðstæðum fólks með fötlun, baráttunni fyrir réttindum þess og fullri þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðannaBan Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir í ávarpi sínu í tilefni alþjóðlegs dags fatlaðra að ríkisstjórnir verði að gera meira til að bæta aðstæður fólks með fötlun. Hrinda þurfi í framkvæmd Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og eins þurfi ríki að taka tillit til þarfa fatlaðra í áætlunum sínum um framkvæmd „Þúsaldarmarkmiða um þróun“ en þau lúta að þróunarverkefnum til að auka lífsgæði íbúa í verst settu ríkjum heims.

Í ávarpi sínu bendir Ban Ki-moon á að tíundi hver einstaklingur í heiminum glími við fötlun og að rúmlega tuttugu prósent fátækustu íbúa þróunarríkjanna séu fatlaðir. Fötlun og fátækt haldist þannig í hendur:

„Fatlaðir búa við mest atvinnuleysi allra í heiminum og skortir oft viðunandi menntun og heilsugæslu. Víða í heiminum er ekki gert ráð fyrir þessum hópi og fatlaðir búa við einangrun án tengsla við þeirra eigið samfélag.

Við skulum viðurkenna á alþjóðlegum degi fatlaðra að sigur vinnst ekki á fátækt, sjúkdómum og mismunun, nema í krafti markvissra laga, stefnumótunar og áætlana í því skyni að valdefla þennan hóp. Við skulum heita því að fyrirheitin um markmiðin gleymist ekki innan raða fatlaðra. Og við skulum einnig,  ekki aðeins sjá til þess að þeir verði á meðal þeirra sem njóta ávaxtanna, heldur gegni mikilvægu hlutverki í fimm ára átaki okkar til að ná Þúsaldarmarkmiðunum fyrir 2015 eins og samþykkt hefur verið á alþjóða vettvangi.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum