Hoppa yfir valmynd
27. júní 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Stefna í málefnum aldraðra til næstu ára

Frá áramótum hefur félags- og tryggingamálaráðherra farið með yfirstjórn öldrunarmála. Í því felst að annast stefnumótun og áætlanagerð fyrir landið í heild og beita sér fyrir almennri umræðu og kynningu á stöðu og valkostum aldraðra. Stefnumótun liggur nú fyrir.

Ráðgjafarhópur sem félags- og tryggingamálaráðherra fól að gera tillögur um helstu áherslur sem leggja bæri til grundvallar við mótun stefnu í málefnum aldraðra til næstu ára hefur skilað tillögum sínum. Þar eru grundvallaráherslurnar skýr réttindi, fjölbreytt úrræði, valfrelsi og einstaklingsmiðuð þjónusta.

Tillögurnar voru fengnar samstarfsnefnd um málefni aldraðra til umsagnar og tekur samstarfsnefndin undir tillögur ráðgjafarhópsins og þau markmið sem búa þar að baki og lúta að bættri þjónustu og aukinni uppbyggingu í þágu aldraðra.

Í ljósi stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá maí 2007 og tillagna ráðgjafarhópsins og vinnu sem fram hefur farið í félags- og tryggingamálaráðuneytinu að undanförnu hefur félags- og tryggingamálaráðherra sett fram eftirfarandi áhersluatriði sem unnið verður að á næstu misserum:

  • Aldraðir fái viðeigandi stuðning og einstaklingsmiðaða þjónustu til að geta dvalið sem lengst á eigin heimili.
  • Aldraðir og aðstandendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um réttindi og þjónustu.
  • Almannatryggingakerfið verði einfaldað og réttindi aldraðra verði betur skilgreind.
  • Réttur aldraðra til sjálfstæðrar búsetu og sjálfsforræðis verði virtur.
  • Öldruðum standi til boða fjölbreytt val búsetuforma.
  • Dagvistar-, hvíldar- og skammtímarýmum verði fjölgað.
  • Gæðaviðmið um þjónustu við aldraða verði sett.
  • Eftirlit með þjónustu við aldraða verði aukið og bætt.
  • Nýjar áherslur verði teknar upp við uppbyggingu hjúkrunarheimila og endurbætur á eldra húsnæði.
  • Greiðsluþátttöku aldraðra í hjúkrunar- og dvalarrýmum verði breytt þannig að aldraðir haldi fjárhagslegu sjálfstæði og greiðslur vasapeninga lagðar af.
  • Hjúkrunarrýmum verði fjölgað til að mæta þörf.
  • Fjölbýlum á hjúkrunarheimilum verði útrýmt að mestu leyti.
  • Tryggt verði að öldrunarþjónustan hafi ávallt á að skipa hæfu og metnaðarfullu starfsfólki.
  • Heildarábyrgð á þjónustu við aldraða verði færð til sveitarfélaga eigi síðar en á árinu 2012.

Í félags- og tryggingamálaráðuneytinu hefur undanfarna mánuði verið unnið að gerð tímasettrar áætlunar um uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma og verulegri fækkun fjölbýla. Áætlunin verður kynnt innan tíðar.

Skjal fyrir Acrobat ReaderTillögur ráðgjafarhóps til félags- og tryggingamálaráðherra um stefnu í þjónustu við aldraða til næstu ára (PDF)

Skjal fyrir Acrobat ReaderSkilabréf ráðgjafarhóps (PDF)

Skjal fyrir Acrobat ReaderUmsögn samstarfsnefndar um málefni aldraðra um tillögur hópsins (PDF - skannað skjal)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum