Hoppa yfir valmynd
31. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Áherslur stjórnvalda í velferðarmálum

Frá blaðamannafundi um aðgerðaáætlun um velferðÁsta R. Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, kynnti á blaðamannafundi í dag aðgerðaáætlun stjórnvalda um velferð sem ríkisstjórnin hefur samþykkt í kjölfar áfangaskýrslu velferðarvaktar.

Aðgerðaáætluninni er ætlað að stuðla að öflugri velferðar- og almannaþjónustu. Í henni koma fram helstu áherslur stjórnvalda í velferðarmálum næstu misserin.

Ráðherra segir að áætlunin sé mikilvægt leiðarljós í væntanlegum aðhaldsaðgerðum í ríkisrekstri. „Áætlunin felur ekki í sér loforð um aukin fjárútgjöld eða kraftaverk heldur er þetta raunsæ áætlun sem endurspeglar þau verkefni sem stjórnvöld þurfa að beina sjónum sínum að í velferðasamfélagi okkar á tímum aðhalds og sparnaðar,“ segir ráðherra. Sérstaklega þarf að gæta þess „að sparnaður í einum hluta hins opinbera kerfis leiði ekki til aukins kostnaðar annars staðar og að við mótun sparnaðartillagna verði störf fólks varin eins og kostur er, sérstaklega innan velferðarkerfisins“.

Aðgerðirnar lúta meðal annars að eftirtöldum atriðum (sjá nánar í aðgerðaáætlun um velferð):

  • Stofnaður verði mótvægissjóður með um 30 milljónum króna sem meðal annars veiti fé til rannsókna á sviði velferðarmála og átaksverkefna fyrir tiltekna hópa sem efnahagsástandið hefur leikið hvað verst.
  • Sérfræðingar verði fengnir til að útbúa félagsvísa til að fylgjast markvisst með félagslegum og fjárhagslegum afleiðingum bankahrunsins á fjölskyldur í landinu.
  • Gott aðgengi verði áfram að velferðarþjónustu.
  • Skilvirk úrræði vegna skuldastöðu heimilanna verði tryggð.
  • Stuðlað verði að því að fólk sem missir atvinnu sína haldi virkni sinni eins og kostur er.
  • Fjölbreyttra leiða verði leitað til að skapa fleiri störf.
  • Félagasamtök verði hvött til að taka að sér verkefni og sjálfboðastarf í þágu samfélagsins.

Tilgreint er í áætluninni hvaða ráðuneytum er ætlað að bera ábyrgð á einstökum aðgerðum. Velferðarvaktin annast eftir atvikum nánari útfærslu einstakra aðgerða, framkvæmd og eftirfylgni. Áætlunin byggist á tillögum velferðarvaktarinnar sem hefur skilað áfangaskýrslu sinni og nýlegum tillögum starfshóps félags- og tryggingamálaráðherra um vinnumarkaðsaðgerðir.

Í áfangaskýrslu velferðarvaktarinnar kemur fram að áhrif efnahagsþrenginganna á einstaklinga séu aðeins komnar fram að litlu leyti, þrátt fyrir mikið atvinnuleysi, erfiða skuldastöðu margra og verulega fjölgun aðstoðarbeiðna til félagsþjónustu sveitarfélaga. Velferðarvaktin telur mikilvægt að úrræði til að bregðast við fjárhagsvanda heimilanna séu samfelld. Þau miði í fyrsta lagi að því að aðstoða þá sem eiga í mestum vanda, í öðru lagi aðstoða þá sem eru í áhættuhópi og í þriðja lagi stuðning við þá sem standa sæmilega en hafa þörf fyrir einföld úrræði til að létta greiðslubyrði sína svo þeir komist klakklaust í gegnum þrengingar næstu missera.

Velferðarvaktinni sem var skipuð af félags- og tryggingamálaráðherra í febrúar síðastliðnum, hefur verið falið að halda áfram störfum sínum. Áfangaskýrsla ásamt upplýsingum um störf velferðarvaktarinnar er aðgengileg á vefsvæði velferðarvaktarinnar.

Skjal fyrir Acrobat ReaderAðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um velferð (PDF, 39KB)



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum