Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samkeppniseftirlitið heimilar samræmd greiðsluerfiðleikaúrræði

Samkeppniseftirlitið ákvarðaði í dag að viðskiptabönkum, sparisjóðum, lífeyrissjóðum og Íbúðalánasjóði sé heimilt að beita samræmdum úrræðum til að aðstoða einstaklinga með fasteignaveðlán sem eiga í greiðsluerfiðleikum.

Þann 3. apríl var undirritað samkomulag milli fyrirtækja á fjármálamarkaði, félags- og tryggingamálaráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins sem felst í því að öllum lántakendum fasteignaveðlána verði tryggð sambærileg úrræði vegna greiðsluerfiðleika og standa viðskiptavinum Íbúðalánasjóðs til boða. Úrræðin varða samninga um uppgjör vanskila, rýmri rýmingarfresti í kjölfar nauðungarsölu, heimildir til greiðslufrestunar vegna sölutregðu fasteigna, skuldbreytingu vanskila, frestun á greiðslu afborgana og lengingu lánstíma. Samkomulagið var undirritað með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins sem veitt var í dag og gildir heimildin til ársloka 2010.

Í umfjöllun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að ætla verði að samkomulagið sé til verulegs hagræðis fyrir skuldara og jafnvel kröfuhafa eins og á stendur.

Til að vernda samkeppni og vinna gegn frekari samræmingu viðskiptaskilmála sem gætu skaðað neytendur og atvinnulíf er mælt fyrir um sérstaka upplýsingagjöf til Samkeppniseftirlitsins um viðskiptaskilmála einstakra fyrirtækja á fjármálamarkaði sem aðilar eru að samkomulaginu. Þá er því beint til umboðsmanna viðskiptavina sem skipaðir hafa verið hjá ríkisbönkunum þremur að þeir stuðli að því að viðkomandi bankar starfi í samræmi við ákvörðunina.

           

Skjal fyrir Acrobat Reader Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins

Tenging frá vef ráðuneytisins Samkomulag um samræmd greiðsluerfiðleikaúrræði



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum