Hoppa yfir valmynd
8. maí 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðgjafarstofan stórefld og ný starfsstöð opnuð

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt tillögu félags- og tryggingamálaráðherra, Ástu R. Jóhannesdóttur, um að stórefla Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna með því að tvöfalda starfsemi hennar og opna nýja starfsstöð. Miðað er við að 8–10 starfsmenn starfi á nýrri starfsstöð við Sóltún 26 en þar getur fólk gengið inn af götunni og fengið fyrstu aðstoð frá ráðgjafa. Ráðgjafarstofan í Sóltúni verður opnuð í næstu viku.

Fjórum stöðugildum verður einnig bætt við starfsstöð stofunnar að Hverfisgötu 6. Fjölgun starfsfólks að Hverfisgötu 6 mun stuðla að því að stytta biðtíma þeirra sem bíða eftir ráðgjöf. Ráðgjafarstofan annaði eftirspurn þangað til nú í apríl þegar aðsókn þrefaldaðist. Miðað er við að unnt verði að vinna á biðlistanum á næstu fjórum vikum.

Ásta R. Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, segist „þakklát öllum sem hafa lagst á eitt við að efla starfsemi Ráðgjafarstofunnar með láni á húsnæði, starfsfólki og aðbúnaði. Tvöföldunin á fjölda starfsfólks leiðir til að enn betur verði hægt að koma til móts við þá sem leita sér ráðgjafar.“

Þetta er í fjórða sinn sem Ráðgjafarstofan hefur verið efld með auknu fjárframlagi til stofnunarinnar, fjölgun starfsfólks og lengri opnunartíma í kjölfar efnahagshrunsins í haust.

Starfsstöðin í Sóltúni er sett á laggirnar tímabundið til þriggja mánaða en þá verður þörfin metin á áframhaldandi starfsemi. Efling Ráðgjafarstofunnar er gerð í samstarfi þeirra sem koma að rekstri hennar, þar á meðal Íbúðalánasjóðs, Reykjavíkurborgar og Nýja Kaupþings banka, Íslandsbanka, Landsbanka og Sambands íslenskra sparisjóða. Reykjavíkurborg og bankarnir leggja til einn til þrjá starfsmenn hver sem verða tímabundið starfsmenn Ráðgjafarstofunnar. Einnig verða ráðnir starfsmenn af atvinnuleysisskrá. Bankarnir leggja til húsnæði, skrifstofubúnað og tölvur.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum