Hoppa yfir valmynd
6. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, hvatti til samstöðu, réttsýni og sanngirni í þeim stóru verkefnum sem framundan eru í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í gær. Í upphafi ræðu sinnar fjallaði hann um aðgerðir sem nýverið voru kynntar til að takast á við skuldavanda heimilanna og sagði meðal annars:

„Það eru miklir óvissutímar og verkefnin eru mörg. En verkefnin eru til þess að takast á við og leysa. Við höfum nú nýverið kynnt viðamiklar aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Þær aðgerðir sýna að þrátt fyrir ólíka hagsmuni er hægt að ná þokkalegri sátt um erfið viðfangsefni með uppbyggilegri nálgun fjármálafyrirtækja, eignarleigufyrirtækja, hagsmunasamtaka og ólíkra flokka jafnt í stjórn og stjórnarandstöðu. Slík vinnubrögð eigum við að ástunda við þessar erfiðu aðstæður.“

Ráðherra lagði þunga áherslu á að gera þurfi öllum kleift að vera hluti af samfélaginu með fullri reisn „...þeirra vegna og okkar allra vegna, af því að við þurfum á öllu okkar fólki að halda. Enginn á að þurfa að draga á eftir sér hala gjaldþrota um ókomin ár vegna þessarar kreppu.

Atvinna og efnahagslegur stöðugleiki er forsenda þess að fólk geti haldið lánum í skilum. Næsta stórverkefni er því að taka á skuldamálum fyrirtækjanna svo þau geti staðið í skilum og haldið fólki í vinnu.“

Tenging frá vef ráðuneytisins Ræðan í heild



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum