Hoppa yfir valmynd
19. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Víðtæk samstaða er forsenda endurreisnar

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, mælti í dag fyrir frumvarpi um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrirhrunsins. Í framsöguræðu sagði ráðherra að frumvarpið væri óvenjulegt og ekki byggt á neinni fyrirmynd þar sem engar slíkar væri að finna. Hann lagði áherslu á samvinnu og samstöðu þingmanna, aðstæður okkar væru með eindæmum og þær krefðust þess að allir sem hlut ættu að máli stæðu heils hugar saman að því að greiða úr flóknum vandamálum og gera það sem allra best.

Í ræðu sinni lagði ráðherra til að settur yrði á fót starfshópur með fulltrúum allra þingflokka til að fylgjast með árangri af þeim aðgerðum sem frumvarpið tekur til og jafnframt að leggja fram tillögur að endurbótum eftir þörfum.

Ráðherra benti á að fyrir hrun hefðu margir verið komnir í ógöngur sem rekja mætti til óábyrgrar hegðunar fjármálastofnana og einstaklinga. Þá dró hann upp mynd af aðstæðum eins og þær eru í dag þar sem greiðslubyrði lána hefur aukist stórlega, tæplega 20.000 einstaklingar er á vanskilaskrá og um 7.000 einstaklingar stefna í verulega greiðsluerfiðleika á næstu mánuðum. Ráðherra sagði augljóst að víðtækar aðgerðir þyrfti til að bregðast við vandanum og á því byggðist frumvarp til laga um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja.

Meginmarkmið frumvarpsins

Frumvarpið sem félags- og tryggingamálaráðherra mælti fyrir í dag hefur eftirtalin meginmarkmið:

  • að bregðast við þeim forsendubresti sem varð við bankahrunið,
  • að koma jafnvægi á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindinga einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar,
  • að dreifa áhættunni þannig að sá skaði sem að mörgu leyti orsakaðist af útlánastefnu fjármálastofnana lendi ekki allur á lántakendum heldur beri fjármálastofnanir einnig hallann,
  • að skapa úrræði og leiðir til að ná markmiðunum á sem skjótvirkastan hátt með samræmdum vinnubrögðum sem tryggja jafnræði.

Efni frumvarpsins

Efni frumvarpsins er tvíþætt og felur annars vegar í sér setningu tímabundins ramma um þá sértæku skuldaaðlögun sem þarf að eiga sér stað í samningum skuldara og kröfuhafa. Er þá átt við einkaréttarlega samninga sem fara fram utan dómstóla. Hins vegar er mælt fyrir um breytingar sem gera þarf á lögum til að aðgerðirnar nái fram að ganga, þ.e. breytingar á lögum um húsnæðismál og breytingar á lögum um greiðslujöfnun. Þær breytingar á lögum um greiðslujöfnun sem boðaðar eru í frumvarpinu byggjast meðal annars á samkomulagi sem náðst hefur við fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði um almenna aðgerð til að létta greiðslubyrði og tryggja að lenging lánstíma vegna greiðslujöfnunar sé takmörkuð við þrjú ár.

Greiðslujöfnun

Með því að setja þriggja ára þak á greiðslujöfnun lána er óvissu lántakenda eytt, þar sem þeir geta gengið að því vísu að leiði greiðslujöfnunin til lengingar lánsins verður lenging vegna hennar aldrei meiri en þrjú ár. Ef einhverjar eftirstöðvar eru þá á láninu verða þær afskrifaðar. Þegar um bílalán er að ræða og einhverjar eftirstöðvar eru af láninu við lok greiðslujöfnunartímabilsins getur lántakinn annað hvort greitt upp eftirstöðvarnar eða skilað bílnum og lokið þannig málinu.

Samkvæmt frumvarpinu verður greiðslujöfnun sett sjálfkrafa á verðtryggð húsnæðislán. Þetta er gert til að tryggja öllum sem þurfa þetta úrræði án þess að þeir þurfi að sækja um það sérstaklega. Aftur á móti er einfalt fyrir þá sem ekki vilja nýta sér greiðslujöfnun að segja sig frá henni.

Með greiðslujöfnun verður greiðslubyrði af húsnæðislánum færð aftur til þess sem hún var fyrir hrun. Ávinningur samfélagsins er mikill. Fjölda fólks verður forðað frá greiðsluvanda, ráðstöfunartekjur aukast og síðast en ekki síst er eytt ótta fólks um að sitja uppi með lán sem lengjast án þess að því séu nokkur takmörk sett.

Sértæk skuldaaðlögun

Sértæk skuldaaðlögun er tímabundin aðgerð og felst í einkaréttarlegum samningum sem fram fara utan dómstóla og tekur aðgerðin jafnt til einstaklinga og fyrirtækja. Með frumvarpinu er settur rammi um útfærsluna til að samræma vinnubrögð og tryggja að jafnræðis sé gætt. Byggt er á samkomulagi sem efnislega liggur fyrir og verður undirritað á næstunni við aðildarfyrirtæki Samtaka fjármálafyrirtækja, Landssamband lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóð.

Sértæk skuldaaðlögun miðast við greiðslugetu viðkomandi skuldara. Eignir og skuldir eru lagaðar að greiðslugetu skuldarans og því er miðað við að stóreignir og bílaeign umfram hið nauðsynlega verði seldar eða leystar til lánastofnana. Þegar kemur að eftirgjöf skulda eru sett þau viðmið að að skuldir umfram
80–100% af veðrými fasteigna færist á biðreikning. Þegar skuldaaðlögunartímabilinu lýkur eru kröfur, yfir þessum viðmiðum sem jafnframt eru umfram greiðslugetu, afskrifaðar.

Endurskoðun opinberrar greiðsluaðlögunar

Félags- og tryggingamálaráðherra sagði frá því í framsöguræðu sinni með frumvarpi um aðgerðir í þágu einstaklinga að á næstunni muni dómsmálaráðherra leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um greiðsluaðlögun óveðtryggðra skulda og tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðskulda. Markmið breytinganna verður að gera þessi úrræði þjálli og skilvirkari og sníða af þeim ýmsa annmarka sem fram hafa komið.

Ráðherra sagði fyrirhugaðar breytingar á lögum um greiðsluaðlögun mjög mikilvægar en lagði áherslu á að miklu varðaði að leysa úr vanda sem allra flestra með beinum samningum milli einstaklinga og kröfuhafa. Greiðsluaðlögun fyrir dómi væri sú leið sem grípa skyldi til þegar aðrar leiðir eru ekki færar.

Tenging frá vef ráðuneytisins Hér er hægt að hlusta á ræðuna á vef Alþingis

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum