Hoppa yfir valmynd
30. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Átak þjóðar gegn atvinnuleysi

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, þakkaði starfsfólki Vinnumálastofnunar mikið og gott starf á liðnu ári þegar hann ávarpaði ársfund stofnunarinnar í dag. Hann sagði að þar hefði fáliðuð stofnun unnið þrekvirki þar sem starfsfólk hefði af lagt alla krafta sína í að tryggja rétta málsmeðferð þeirra sem á henni þurfa að halda.

Ráðherra sagðist ekki taka undir gagnrýni sem fram hefur komið um að stofnunin sinni ekki þörfum atvinnulausra nógu vel og bætti við að til að sinna þeim þúsundum sem nú eru atvinnulausir dugi ekki ein stofnun. „Við þurfum að bregðast við sem þjóð. Við þurfum samhæft átak gegn þessum gríðarlega vanda. Við Íslendingar höfum góða reynslu af því að bregðast við náttúruhamförum. Þar leggjast allir á eitt og aðgerðir eru samhæfðar. Opinberir aðilar og sjálfboðasamtök vinna saman til að aðstoða fólk og bjarga verðmætum.“

Við höfum lent í efnahagslegum hamförum sagði ráðherra og við slíkar aðstæður þarf samhæfðar aðgerðir þar sem allir leggjast á árar, Vinnumálastofnun, aðrar opinberar stofnanir, launþegahreyfingin, Rauði krossinn, þjóðkirkjan, íþróttahreyfingin og fjölmargir aðrir. „Við þurfum með sameiginlegu átaki að snúa taflinu við, að breyta glímu við bráðavanda í uppbyggingar- og sóknarstarf.“

Ráðherra gerði vanda ungs fólks án atvinnu að sérstöku umtalsefni og sagði þar mikinn auð liggja ónýttan hjá garði. „Við höfum á undanförnum vikum með skipulegum hætti kannað aðstæður og viðhorf atvinnulausra ungmenna í þessu landi. Því miður er það svo að þúsundir þeirra sitja heima á bótum. Þau eru mörg hver vonlítil um vinnu, vonlítil um nám og vonlítil um eigin framtíð. Þeim hefur ekki tekist að finna sér stað í samfélaginu.

Við þessu verðum við að bregðast. Við getum ekki og við megum ekki láta hundruð eða þúsundir ungmenna alast upp sem bótaþega. Okkur ber skylda til að skapa þessu unga fólki tækifæri til annars konar framtíðar. Við megum ekki kastað á glæ hugviti þeirra, mannafli og krafti. Það væri ömurleg afleiðing þeirrar kreppu sem yfir okkur hefur dunið og við megum ekki láta það gerast.

Við höfum átt mjög gott samstarf við menntamálaráðuneytið um nýjar leiðir til að bregðast við þörf þess stóra hóps ungra atvinnuleitenda sem ekki hefur mikla menntun að baki. Til þessa starfs viljum við einnig leiða saman mikilvægar stofnanir og félagasamtök á borð við þær sem ég nefndi hér áðan – til samhæfðra aðgerða gegn samfélagslegri vá.

Við munum á næstu vikum og mánuðum kynna hugmyndir sem miða að því að virkja þetta atvinnulausa unga fólk til þátttöku í samfélaginu, virkja það til náms og auka því sjálfstraust og trú á framtíðina.

Ég tel að við eigum að breyta útgjöldum til bótagreiðslna ungmenna í fjárfestingu í menntun og fjárfestingu í tækifærum. Því vil ég skoða hvort ekki sé rétt að breyta bótagreiðslum til langtímaatvinnulauss ungs fólks í tímabundna náms- og virknistyrki.

Við ætlum einnig að auka til muna þá kosti sem þessu unga fólki bjóðast til náms, til sjálfboðastarfa og margvíslegra annarra verkefna. Við munum bjóða ungu fólki að vera ekki lengur einungis þiggjendur í bótakerfi, heldur gerendur og virkir þátttakendur í samfélaginu. Þessi tækifæri munum við flétta með markvissum hætti inn í umgjörð atvinnuleysisbóta.

Með þessum aðgerðum og mörgum öðrum viljum við byggja upp unga fólkið okkar, í stað þess að hafa þau heima, aðgerðalítil og afskipt, með því að veita þeim tækifæri til að takast á við verðug verkefni á hverjum degi, virkja hugmyndaflug þeirra og sköpunargleði og ekki síst til þess að þau skynji, að þau hafi að einhverju að vaka og vinna.

Með sama hætti þurfum við að tengja saman ábyrgð af virkri atvinnuleit og endurgjald. Þeir sem ekki eru að leita að vinnu eiga ekki að fá bætur. Þeir sem ekki þiggja vinnu eiga að þurfa að leggja af mörkum til að ávinna sér á ný rétt til atvinnuleysisbóta. Þeir sem vilja læra eiga að geta það – hindrunarlaust. Við munum leggja fram fjölþættar hugmyndir á næstu vikum um stóraukin úrræði fyrir atvinnuleitendur og aukna ábyrgð atvinnuleitenda.

Tenging frá vef ráðuneytisins Ræða ráðherra í heild

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum