Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tillögur um úrræði fyrir ungt fólk án atvinnu

Vinnuhópur sem settur var á fót í september til að fjalla um aðgerðir til að stuðla að virkni atvinnulausra hefur skilað tillögum sínum. Félags- og tryggingamálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra stofnuðu vinnuhópinn og fólu honum að fjalla um þau úrræði sem standa til boða fólki sem misst hefur atvinnu sína, kanna námsmöguleika þess og gera tillögur um úrbætur.

Aflað var viðamikilla upplýsinga um hagi atvinnulausra og þær greindar. Sérstök áhersla var lögð á að greina aðstæður ungs fólks án atvinnu, enda er atvinnuleysi hlutfallslega mest meðal fólks undir þrítugu. Reynsla annarra norrænna ríkja hefur sýnt að afleiðingar atvinnuleysis eru alvarlegastar hjá þeim sem minnsta menntun hafa og jafnframt að varanleg neikvæð áhrif langtímaatvinnuleysis eru mest hjá ungu fólki.

Flestir ungir langtímaatvinnulausir hafa aðeins grunnskólapróf að baki

Í skýrslunni kemur fram að skráð atvinnuleysi í október var um 7,6% sem svarar til þess að um 12.680 manns voru án atvinnu. Af þeim hópi hafði rúmlega helmingur verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur sem er skilgreining á langtímaatvinnuleysi. Nánari skoðun vinnuhópsins á þessum upplýsingum leiddi í ljós að yfir 30% langtímaatvinnulausra eru ungt fólk, 30 ára og yngri. Þá kom fram að í hópi allra langtímaatvinnulausra sem eru undir þrítugu hefur langstærstur hluti hópsins (77,4%) einungis lokið grunnskólaprófi.

Í skýrslu hópsins er lögð áhersla á að atvinnulausir eru hluti af vinnumarkaðinum. Fólk í starfi vinni sér inn rétt til atvinnuleysisbóta en reyni á að fólk þurfi að nýta þær, séu þær hugsaðar til framfærslu þar til það fær vinnu á ný. „Atvinnuleysisbætur eru því bæði áunninn réttur einstaklingsins og fjárfesting samfélagsins en hagur beggja er að greiða fólki fyrir að leita sér að atvinnu og nýta atvinnuleysistímabil til að halda starfsgetu sinni við og auka færni sína” segir í skýrslu starfshópsins.

Nýta þarf lagaheimildir til að skylda ungt fólk án atvinnu til virkni

Vinnuhópurinn leggur áherslu á að ekki nægi að kynna úrræði til virkni og menntunar fyrir þeim sem eru án atvinnu. Tryggja þurfi með öllum ráðum að fólk nýti þau úrræði sem standi til boða. Í tillögum sínum hvetur hópurinn Vinnumálastofnun til þess að skylda unga atvinnuleitendur til virkni í samræmi við lagaheimildir, enda sé þessi hópur betur settur í námi eða öðrum reglubundnum virkniúrræðum en afskiptalausir á bótum.

Hamlað verði gegn miklu brottfalli nemenda úr framhaldsskólum

Í skýrslu hópsins er bent á að Ísland hafi lengi haft sérstöðu vegna mikils brottfalls nemenda úr framhaldsskólum og einnig vegna síðbúinna námsloka hjá stórum hópi þar sem fólk lýkur námi á þrítugs- og fertugsaldri. Í ljósi mikils atvinnuleysis meðal ungs fólks sé því áríðandi að menntakerfið og vinnumálakerfið bregðist við, hamli sem mest gegn brottfalli og beini sem flestu menntunarlitlu og atvinnulausu ungu fólki í nám á nýjan leik. Einnig er bent á að þótt áhersla verði lögð á að beina ungu fólki í nám þurfi jafnframt að tryggja öflug virkniúrræði fyrir ungt fólk þar sem rannsóknir hafa sýnt að meirihluti brottfallsnemenda er fráhverfur framhaldsskólanámi.

Tillögur vinnuhópsins um aðgerðir til að sporna gegn afleiðingum atvinnuleysis

Í skýrslu vinnuhópsins eru settar fram tillögur sem varða menntunar- og virkniúrræði, starfsþjálfun, sjálfboðaliðastörf, átaksverkefni, styrkta starfsemi Vinnumálastofnunar og samhæfingu úrræða fyrir ungt fólk án atvinnu í Reykjavík. Einnig eru settar fram tillögur um að bæta reglulega upplýsingaöflun um hagi og stöðu atvinnulausra og tillögur um leiðir til að efla samfélagsumræðu um þessi málefni. Tillögur hópsins byggjast á sex meginstoðum:

1.  Meginmarkmið aðgerða til að sporna við neikvæðum afleiðingum atvinnuleysis ungs fólks er að fækka þeim sem eru óvirkir á atvinnuleysisbótum. Efla þar með öllum hugsanlegum leiðum aðgerðir til að auka virkni þessa hóps auk þess að gera símenntunarmiðstöðvum, framhaldsskólum og frumgreinadeildum kleift að taka á móti þessum einstaklingum.

2.  Það er mat hópsins að fyrst og fremst eigi að nýta þær námsleiðir og menntunarúrræði sem þegar eru í boði og efla þau sem hafa reynst vel. Þó verði hugað að auknu framboði starfsnáms og sérstökum virkniskapandi námskeiðum fyrir þá sem lengi hafa verið atvinnulausir. 

3.  Efla verður ráðgjöf við atvinnulausa, hvatningu til þeirra og þrýsting á að þeir séu virkir í atvinnuleit sinni og sinni virkniúrræðum sem í boði eru.

4.  Nota þarf áhrifaríkar aðferðir til að vekja áhuga ungs fólks án atvinnu á virkni- og menntunarmöguleikum sem þeim standa til boða. Þetta á sérstaklega við um höfuðborgarsvæðið. 

5.  Hópurinn kallar eftir vitundarvakningu um afleiðingar atvinnuleysis. Virkja verður allar leiðir til að ná til ungs fólks og aðstandenda þeirra, hvort sem er í gegnum fjölmiðla eða eftir öðrum leiðum.

6.  Greining og söfnun upplýsinga um atvinnuleitendur verði gerð markvissari og samhæfðari.

Umfjöllun um einstakar tillögur og útfærslur þeirra eru í 1. kafla skýrslunnar. 

 Skýrslan. Ungt fólk án atvinnu – virkni þess og menntun 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum