Hoppa yfir valmynd
17. desember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Stórátak í uppbyggingu fjölbreyttra tækifæra fyrir ungt fólk án atvinnu

Félags- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að verja 1,3 milljörðum króna árið 2010 í stórátak til að skapa fjölbreytt tækifæri fyrir fólk án atvinnu til starfa, menntunar eða annars konar virkni. Sérstök áhersla verður lögð á uppbyggingu úrræða fyrir ungt fólk og aðgerðir til að bregðast við langtímaatvinnuleysi. Um 2.700 ungmenni á aldrinum 16-24 ára eru atvinnulaus um þessar mundir. 

Markmið átaksins

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur sett það markmið að aldrei skuli líða meira en þrír mánuðir frá því að einstaklingur verður atvinnulaus þar til honum er boðið starf, námstækifæri, starfsþjálfun eða þátttaka í öðrum verðugum verkefnum. Áætlað er þessu markmiði verði náð gagnvart fólki sem er yngra en 25 ára fyrir 1. apríl 2010 og fyrir 1. júlí 2010 gagnvart þeim sem eru eldri en 25 ára.

Vinnumálastofnun mun stýra verkefninu en verður í samstarfi við fjölmarga aðila um framkvæmd þess, svo sem framhaldsskóla, símennuntarmiðstöðvar, stéttarfélög, fyrirtæki stofnanir og frjáls félagasamtök.  

Til að ná fyrrnefndum markmiðum hefur verið gerð áætlun um sköpun nýrra tækifæra fyrir ungt fólk án atvinnu sem miðast við að árið 2010 verði komið á fót um 2.400 mismunandi úrræðum:

  1. allt að 450 ný námstækifæri í framhaldsskólum landsins fyrir ungt fólk án atvinnu,
  2. allt að 700 ný námstækifæri fyrir fólk án atvinnu til náms á vegum símenntunarstöðva og til aðfararnáms að frumgreinadeildum,
  3. allt að 450 ný starfsþjálfunarpláss og störf við átaksverkefni á vegum félagasamtaka, sveitarfélaga og annarra,
  4. allt að 400 ný sjálfboðastörf,
  5. allt að 400 ný pláss á vinnustofum ásamt endurhæfingar- og meðferðarúrræðum.

Tölurnar hér að framan eru settar fram með þeim fyrirvara að fjöldi úrræða mun ráðast af þörf eins og hún kemur fram í viðtölum ráðgjafa við atvinnuleitendur. Áætlað er að um 300 ungmenni muni fá atvinnu og þurfi því ekki á sérstökum úrræðum að halda.

Spornað við skaðlegum áhrifum atvinnuleysis

Atvinnuleysi hér á landi hefur nær fjórfaldast á einu ári og var skráð um 8,0% í nóvember síðastliðnum. Hópur langtímaatvinnulausra (atvinnulausir í sex mánuði eða lengur) fer ört stækkandi en þeir voru tæplega 7.400 í nóvember. Upplýsingar úr atvinnuleysisskrá sýna að um helmingur allra sem eru án atvinnu hafa aðeins lokið grunnskólaprófi. Í hópi atvinnulausra undir þrítugu hafa tæp 70% einungis lokið grunnskólaprófi og í hópi langtímaatvinnulausra er þetta hlutfall 73%.

Reynsla nágrannaþjóða okkar sýnir að afleiðingar langtímaatvinnuleysis eru hvað alvarlegastar fyrir ungt fólk, enda hátt hlutfall ungs fólks sem missir atvinnu með litla skólagöngu að baki og jafnframt skamma starfsreynslu. Þetta eru jafnan þeir sem fyrstir missa vinnu þegar þrengir að og fá síðastir vinnu á ný þegar úr rætist á vinnumarkaði.

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, segir óumdeilanlegt að tryggja verði með öllum ráðum virkni ungs fólks, veita því ráðgjöf og aðstoð við starfsleit, finna því námstækifæri við hæfi, tryggja því starfsþjálfun eða aðrar leiðir til virkrar þátttöku í samfélaginu. „Þótt miklu þurfi að kosta til er þeim fjármunum tvímælalaust vel varið. Það væri hins vegar ófyrirgefanleg sóun að bregðast ekki við og skapa með því hættu á varanlegri örorku fjölda ungs og efnilegs fólks.“

Fjármögnun átaksins

Áætluð fjárþörf þessa verkefnis er um 1,3 milljarðar króna árið 2010. Með fyrirhuguðum breytingum á lögum um atvinnuleysistrygginga mun nást fram sparnaður sem reiknað er með að standi undir fjármögnun verkefnisins fyrri hluta ársins 2010. Þá er þess vænst að árangur af átakinu, samhliða minnkandi atvinnuleysi skapi rúm fyrir frekari fjármögnun þess á síðari hluta ársins, án þess að hækka þurfi gjöld í tryggingasjóðs. Gangi þetta ekki eftir verður fjárþörf verkefnisins endurmetin um mitt ár 2010.

Tengt efni:

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum