Hoppa yfir valmynd
18. desember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Yfirlýsing vegna umfjöllunar um flutning hjúkrunarrýma aldraðra til félags- og tryggingamálaráðuneytisins

 

Félags- og tryggingamálaráðuneytið lýsir undrun á fjölmiðlaumfjöllun um andstöðu við áform stjórnvalda um að flytja þjónustu á hjúkrunarheimilum frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Bent er á að heildarábyrgð á málefnum aldraðra fluttist til félags- og tryggingamálaráðuneytisins með lögum sem tóku gildi fyrir tveimur árum. Þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, mælti fyrir frumvarpi til laga um breytinguna og var undirbúningur málsins unninn í góðu samráði við hagsmunaaðila, ekki síst forsvarsmenn aldraðra en Landssamband eldri borgara hafði lengi barist fyrir þessari breytingu.

Í fjárlagafrumvarpi 2010 er gert ráð fyrir að fjárheimildir vegna öldrunarþjónustu færist frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytisins í byrjun næsta árs. Þar með er stigið síðasta skrefið í flutningi þessa málaflokks í eitt ráðuneyti. Þessi breyting er í samræmi við ákvörðun sem tekin var á sumarþingi 2007 að hagræða og einfalda opinbera stjórnsýslu með því að skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn. Þessi breytta verkaskipting átti að endurspegla það viðhorf að öldrun sé ekki sjúkdómur sem kalli á heilbrigðisþjónustu heldur almenna öldrunar- og umönnunarþjónustu.

Þetta er einnig í fullu samræmi við óskir aldraðra sem hafa ályktað að öldrunarmál eigi að færa undir eitt ráðuneyti. Skemmst er að minnast þess að Landssamband eldri borgara beindi sérstakri áskorun til ráðherra á landsfundi samtakanna í maí sl. þess efnis að þessi breyting yrði að fullu og öllu að veruleika. Með breytingunni verður auðveldara að samhæfa fjölmörg þjónustukerfi sem veita öldruðum stuðning sem er forsenda þess að aldraðir geti búið lengur í eigin húsnæði. Þetta hefur verið krafa aldraðra um langt árabil sem hefur reynst erfitt að hrinda í framkvæmd. Það er því mikil áskorun fyrir félags- og tryggingamálaráðuneytið að taka við þessu nýja verkefni.

Hvorki notandi né starfsfólk þjónustunnar mun finna fyrir breytingum þótt fjárheimildir færist á milli ráðuneyta. Þjónustan verður veitt með nákvæmlega sama hætti, á sama stað og af sama starfs­fólki og sömu faglegu kröfur verða gerðar til sérhvers þjónustuþáttar. Heilbrigðis­starfmenn einir munu eftir sem áður veita heilbrigðisþjónustu innan sem utan dvalar- og hjúkrunarheimila undir eftirliti landlæknis.

Þessar breytingar hafa verið mjög vel undirbúnar og á milli félags- og trygginga­málaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis hefur verið gert samkomulag um sameiginlega verkefnisstjórn ráðuneytanna sem á að tryggja samhæfða og skilvirka ákvarðanatöku innan málaflokksins. Þar kemur fram að stefnt skuli að því að aldraðir njóti meira valfrelsis og fjárhagslegs sjálfstæðis og geti eins lengi og unnt er búið sjálfstæðri búsetu. Þjónustan skal vera einstaklingsmiðuð og veitt á því þjónustustigi sem hæfir hverju tilviki. Á þessu sviði er frekari breytinga að vænta. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur skýrt fram áhersla um samþættingu allrar þjónustu við aldraða og fyrirheit um flutning allrar þjónustu við aldraða til sveitarfélaga. Áfram er unnið að því verkefni af fullum krafti.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum