Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Námstækifæri fyrir allt að 700 unga atvinnuleitendur

Vinnumálastofnun hefur samið við Kvasir, samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, um að annast kennslu, starfsþjálfun vegna atvinnutengds náms, stuðning og ráðgjöf fyrir allt að 700 unga atvinnuleitendur. Áætlað er að um 300 milljónum króna verði varið til verkefnisins. Markmið samningsins er að tryggja virkni- og námsúrræði fyrir ungt fólk án atvinnu sem er tryggt í atvinnuleysistryggingakerfinu.

Efni námskeiða og verkefna sem verða í boði byggjast á námskrám sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins gefur út og eru vottaðar af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Miðað er við að kennt verði í tuttugu manna hópum.

Vinnumálastofnun velur einstaklinga í verkefnið og tilkynnir viðkomandi símenntunarstöðvum um fjölda nemenda í námskeiðum og verkefnum. Fylgst verður með þátttöku nemenda og ef einhver hættir eða er látinn hætta verður það tilkynnt til Vinnumálastofnunar.

Rúmlega 2.000 ný starfs- og námstækifæri fyrir ungt fólk á þessu ári

Um síðustu áramót hrintu félags- og tryggingamálaráðuneytið og Vinnumálastofnun af stað stóru átaksverkefni, Ungt fólk til athafna, sem miðar að því að skapa yfir 2.000 ný náms- og starfstækifæri fyrir ungt fólk á þessu ári. Þegar hafa verið tryggð úrræði fyrir hátt í 1.000 einstaklinga með samningnum við Kvasir og samningi við Rauða kross Íslands sem undirritaður var í gær.

Ráðuneytið og Vinnumálastofnun hafa sett það markmið að enginn verði atvinnulaus lengur en þrjá mánuði án þess að fá tilboð um vinnumarkaðsúrræði af einhverju tagi. Þessu markmiði skal náð gagnvart fólki yngra en 25 ára fyrir 1. apríl 2010 og 1. september 2010 fyrir aðra.

Útskrift 20 ungmenna úr námi hjá Frumkvöðlasmiðjunni á Akranesi

Í dag voru útskrifaðir 20 nemendur úr hópi ungs fólks án atvinnu sem hafa verið í þriggja vikna námi hjá Frumkvöðlasmiðjunnar á Akranesi sem er hluti af samstarfi Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands og Vinnumálastofnunar. Inga Dóra Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi segir að nemendurnir hafi sýnt náminu mikinn áhuga og ljóst að það hafi nýst þeim vel. Þrjár viðskiptahugmyndir frumkvöðla munu verða að veruleika á næstunni með stofnun smáfyrirtækja. 

Árni Páll sagði ákaflega dýrmætt að sjá kraft og hugmyndaríki ungs fólks finna sér farveg í námi eins og hjá Frumkvöðlasetrinu. „Þetta er gott dæmi um verkefni sem gagnast ungu fólki í atvinnuleit og skapar því færi á að nýta getu sína og hæfileika.“

 Inga Dóra færði Árna Páli Árnasyni, félags- og tryggingamálaráðherra sýnishorn af verkefnum nemenda að þeirra ósk, þar á meðal forláta sápuþvottapoka úr ull.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum