Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Auglýst eftir rekstraraðilum nýs hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbraut

Rekstur á nýju 110 rýma hjúkrunarheimili við Suðurlandsbraut í Reykjavík hefst 1. ágúst og munu Ríkiskaup, fyrir hönd félags- og tryggingamálaráðuneytisins, auglýsa eftir rekstraraðilum nú um helgina.

Á hjúkrunarheimilinu verða 70 almenn hjúkrunarrými fyrir aldraða, auk fjögurra sérhæfðra eininga með 10 rýmum hver, ein fyrir hjúkrunarsjúklinga yngri en 67 ára, ein fyrir fólk með heilabilun sem er yngra en 67 ára og ein ætluð til hvíldarinnlagna fyrir heilabilaða. Jafnframt verður ein eining ætluð fólki með geðræn vandamál. Rekstur slíkrar sérhæfðrar einingar er nýmæli hér á landi.

Innra skipulag hjúkrunarheimilisins felur í sér að heimilismenn búa saman í tíu rýma hjúkrunareiningum, hver og einn með einstaklingsherbergi og baðherbergi, samtals 24 fermetra, en sameiginlegri aðstöðu að öðru leyti. Markmiðið með rekstri hjúkrunarheimilisins við Suðurlandsbraut er að skapa heimili fyrir fólk sem vegna heilsu sinnar og aðstæðna er ekki lengur fært um að búa á eigin vegum með viðeigandi stuðningi og þarf á umönnun og hjúkrun að halda. Áhersla er lögð á að umhverfi og skipulag líkist sem mest aðstæðum á einkaheimilum fólks en mæti engu að síður þörfum þeirra sem hafa skerta getu til athafna daglegs lífs.

Framkvæmdir við byggingu hjúkrunarheimilisins ganga samkvæmt áætlun og verður það afhent rekstraraðila frágengið að fullu með öllum búnaði. Móttaka heimilisfólks mun hefjast 1. ágúst í sumar og er miðað við að heimilið verði komið í fullan rekstur 1. september 2010.

Val á rekstraraðila fer fram að undangenginni auglýsingu Ríkiskaupa, fyrir hönd félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Auglýsing Ríkiskaupa verður birt í dagblöðum um helgina en nánari upplýsingar um kröfur til rekstraraðila verða aðgengilegar á heimasíðu Ríkiskaupa, http://www.rikiskaup.is/utbod/14802, miðvikudaginn 24. febrúar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum