Hoppa yfir valmynd
18. maí 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úthlutun styrkja í tilefni Evrópuársins 2010

Evrópa gegn fátækt
Evrópa gegn fátækt

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur úthlutað styrkjum úr sjóð sem stofnaður var í tilefni Evrópuársins 2010 sem tileinkað er baráttunni gegn fátækt og félagslegri einangrun. Alls bárust 84 umsóknir og sótt var um alls 208.260.113 kr. Alls hlaut  21 verkefni og rannsóknir styrki úr sjóðnum og munu þau koma til framkvæmda á þessu ári. Alls var úthlutað 30.188.000 kr. úr sjóðnum. 

Árið 2010 er tileinkað baráttunni gegn fátækt og félagslegri einangrun í Evrópu. Á Íslandi er lögð áhersla á að styrkja verkefni sem auka fjölbreytni við úrræði og námskeið til að bæta aðstæður tekjulágra hópa og fjölskyldna, atvinnulausra og fólks með skerta starfsgetu, verkefni sem vinna gegn fordómum sem einstaklingar upplifa vegna aðstæðna sinna og sem ýta undir félagslega virkni fólks sem hætt er við einangrun vegna langtímaatvinnuleysis eða bágra aðstæðna. Auk þess er lögð áhersla á að raddir þeirra sem búa við fátækt og félagslega einangrun heyrist í samfélaginu.

Upplýsingar um þau verkefni sem hlutu styrk:

Ása Guðbjörg Ásgeirsdóttir hlaut styrk vegna rannsóknarinnar Forspárþættir um heilsu og líðan atvinnulausra á tímum efnahagsþrenginga. Rannsókninni er ætlað að skoða tengsl atvinnuleysis í kjölfar kreppunnar og heilsu og líðunar. Skoðað verður sérstaklega hvaða áhrif félagslegur stuðningur og heilsutengd hegðun hefur á þetta samband. Rannsóknin hlaut styrk að fjárhæð 2.612.000 kr.

Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd hlaut styrk vegna rannsóknarinnar Pólskar barnafjölskyldur í Reykjavík. Markmiðið er að afla upplýsinga um félagslegar aðstæður pólskra barna og fjölskyldna þeirra til að skipuleggja þjónustu fyrir þennan hóp en atvinnuleysi meðal Pólverja er hátt um þessar mundir. Rannsóknin hlaut styrk að fjárhæð 1.950.000 kr.

Rannsóknasetur í fötlunarfræðum í samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands hlaut styrk vegna rannsóknarinnar Fátækt og félagslegar aðstæður öryrkja. Markmið rannsóknarinnar er að kanna efnahagslegar og félagslegar aðstæður öryrkja og öðlast skilning á birtingarmyndum mismununar, fordóma, fátæktar og félagslegrar aðgreiningar þeirra, meðal annars með tilliti til aldurs, kyns og fötlunar en sérstaklega verður skoðuð staða barnafjölskyldna þar sem annað eða báðir foreldrar eru öryrkjar. Rannsóknin hlaut styrk að fjárhæð 3.500.000 kr.

Halldór Sig. Guðmundsson hlaut styrk vegna rannsóknarinnar Áhrif starfsendurhæfingar á fátækt, félagslega einangrun og virkni þátttakenda. Gerð verður úttekt á fátækt, félagslegri einangrun og virkni þátttakenda hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands. Rannsóknin hlaut styrk að fjárhæð 1.934.000 kr.

Hanna Ragnheiður Björnsdóttir hlaut styrk vegna könnunarinnar Líðan, ástand og viðbrögð við kreppunni. Lagðar verða raðkannanir fyrir skjólstæðinga Hjálparstarfs kirkjunnar til að kanna líðan þeirra og ástand og viðbrögð við efnahagsþrengingunum. Könnunin hlaut styrk að fjárhæð 500.000 kr.

Heyrnarhjálp, félag heyrnarskertra á Íslandi, hlaut styrk vegna verkefnisins Átak til að rjúfa félagslega einangrun heyrnarskertra og vinna á móti mismunun. Verkefnið miðast að því að gefa heyrnarskertum tækifæri á að sækja almenn námskeið sem í boði eru. Gildi verkefnisins er að opna leiðir fyrir heyrnarskerta, stuðla að jafnrétti, auka félagsfærni, bæta vellíðan og hugsanlega heilsu viðkomandi, breyta viðhorfum gagnvart heyrnarskertum og minnka félagslega einangrun þeirra. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 1.000.000 kr.

Kærleikssamtökin hlutu styrk vegna verkefnisins Einstaklings- og fjölskylduuppbygging. Um er að ræða meðferðaúrræði sem sniðið er að föngum, í formi námskeiða og einstaklingsvinnu. Unnið er með tilfinningar, hugsanir og hegðun tengda fangelsisvistinni og þá þætti sem snúa að því að hvernig eigi að fóta sig í þjóðfélaginu aftur. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 730.000 kr.

Hildur Jóhannesdóttir og Gunnar Kvaran hlutu styrk vegna verkefnisins Töframáttur tónlistar. Markmið verkefnisins er að bjóða upp á lifandi tónlistarflutning fyrir gesti, þeim að kostnaðarlausu, sem kljást við veikindi af geðrænum toga, eldri borgara á öldrunarstofnunum og á Litla hrauni. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 400.000 kr.

Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi hlutu styrk vegna verkefnisins Taktu þátt- atvinnuleit og sjálfsstyrking fyrir karlmenn af erlendum uppruna. Verkefnið er átta vikna námskeið þar sem þátttakendur kynnast öðru fólki af erlendum uppruna sem gegnir fyrirmyndarhlutverki og getur miðlað þekkingu og reynslu sem leiðbeinendur. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 1.200.000 kr.

HHópurinn hlaut styrk vegna verkefnisins Opið hús með næringu og samfélagi. Tilgangur HHhópsins og verkefnisins er að auka lífsgæði íbúa á Hátúnssvæðinu með því að rjúfa félagslega einangrun, auka samveru og stuðning til virkrar þátttöku í samfélaginu. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 1.500.000 kr.

Hlutverkasetur og AE-starfsendurhæfing hlutu styrk vegna verkefnisins Samferða í Hlutverkasetri. Tilgangur verkefnisins er að koma fólki í virkni og draga úr félagslegri einangrun þess og auka lífsgæði. Í því felast námskeið hjá Hlutverkasetri eða tímabundin störf hjá fyrirtækjum sem veita fólki aukið sjálfstraust til að koma sér á framfæri á vinnumarkaði. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.

Efling-stéttarfélag hlaut styrk vegna verkefnisins Atvinnuleitendur af erlendum uppruna. Verkefnið felst í að þróa og halda 300 stunda nám fyrir erlenda félagsmenn Eflingar sem eru í atvinnuleit. Markhópurinn verður þeir sem hafa verið atvinnulausir í meira en 12 mánuði og tala litla sem enga íslensku. Meginþættir námsins verða íslenska, samfélagsfræðsla, sjálfsstyrking, tölvunám, fræðsla um nám, störf og vinnumarkaðurinn, gerð færnimöppu og starfskynningar auk þess sem fram fer áhugasviðsgreining. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.

Miðgarður, þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness, hlaut styrk vegna verkefnisins Sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir konur. Markmiðið er að auka sjálfstraust og sjálfstrú kvenna á sjálfum sér til að hjálpa þeim að bæta stöðu sína og auka vellíðan. Haldið verður námskeið sem er ætlað atvinnulausum konum í Grafarvogi, án endurgjalds, sem þurfa að efla sjálfsímynd sína til að bæta stöðu sína. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 428.000 kr.

Hjálpastarf kirkjunnar hlaut styrk vegna verkefnisins Framtíðarsjóður. Markmið verkefnisins er að gera ungmennum frá efnaminni fjölskyldum kleift að ljúka námi sem gefur aðgang að lánshæfu námi eða starfsréttindi. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.

Keflavíkurkirkja hlaut styrk vegna verkefnisins Skref fyrir skref. Markmið verkefnisins er að hjálpa atvinnulausum, öryrkjum og útlendingum að hafa stjórn á fjármálum sínum og leita leiða til að nýta fjármuni sína betur og forgangsraða útgjöldum. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 1.000.000 kr.

Edda Ólafsdóttir hlaut styrk vegna verkefnisins Innflytjendur á jaðrinum. Markmið verkefnisins er að gera frumkönnun og kortlagningu á innflytjendum á jaðrinum. Haldið verður málþing þar sem aðilum sem vinna að málefnum innflytjenda á jaðrinum verður boðið. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 300.000 kr.

Jafnréttishús hlaut styrk vegna verkefnisins Veröldin okkar. Markmið verkefnisins er að styrkja stöðu þátttakenda á vinnumarkaði, styrkja tengslanet og félagslega stöðu. Áhersla verður lögð á að virkja hugmyndir og krafta kvenna. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 2.650.000 kr.

Fjölskyldu- og félagsþjónusta Reykjanesbæjar hlaut styrk vegna verkefnisins Frá fátækt til athafna. Markmið verkefnisins er að kenna ungum einstæðum mæðrum sem eru í hættu að festast í fátækargildru grunnatriði daglegs lífs til að bæta lífskjör þeirra með það að markmiði að auka lífsgæði fjölskyldu þeirra til frambúðar. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 2.744.000 kr.

Edda Jónsdóttir hlaut styrk að gera útvarpsþáttaröðina Harðgrýti fátæktar en þar verður fjallað um fátækt og mismunandi birtingarmyndir hennar. Þættirnir verða fluttir vikulega í maí og júní og er hugmyndin að opna umræðu um fátækt hér á landi og vinna gegn fordómum vegna hennar. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 800.000 kr.

Velferðasjóður Suðurnesja hlaut styrk vegna verkefnisins Sumarið suður með sjó. Verkefnið snýr að aðstoð við kostnað á leikjanámskeið og sumarbúið fyrir börn efnaminni foreldra. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 690.000 kr.

Vilborg Oddsdóttir hlaut styrk til að stofna EAPN (european anti-poverty network) á Íslandi. EAPN er tengslanet þeirra félagasamtaka sem vinna að málefnum þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu en markmið þeirra er að opna umræðu og vekja athygli á fátækt og afleiðinga hennar auk þess að virkja og aðstoða fólk við að losna úr viðjum hennar. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 250.000 kr.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum