Hoppa yfir valmynd
2. september 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðherraskipti og sameining ráðuneyta

Guðbjartur Hannesson og Árni Páll Árnason
Guðbjartur Hannesson og Árni Páll Árnason

Guðbjartur Hannesson tók í dag við lyklum að félags- og tryggingamálaráðuneytinu úr hendi Árna Páls Árnasonar. Guðbjartur er einnig ráðherra heilbrigðismála og mun stýra sameiningu ráðuneytanna tveggja sem tekur gildi um næstu áramót.

Ráðherrarnir ræddu um verkefnin sem framundan eru og sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins. Guðbjartur sagði viðfangsefnið stórt og ákaflega mikilvægt: „Sameining ráðuneytanna felur í sér margvísleg tækifæri vegna þess hve verkefni þeirra á sviði velferðarmála eru nátengd. Sameinuð verða ráðuneytin sterkari og betur í stakk búin til að takast á við framtíðina.“

Guðbjartur tók sæti á Alþingi árið 2007. Hann er kennari að mennt með framhaldsnám í skólastjórn frá Kennaraháskóla Íslands og meistarapróf frá kennaraskóla Lundúnaháskóla. Guðbjartur hefur setið í fjárlaganefnd Alþingis frá árinu 2007 og tók við formennsku hennar árið 2009. Hann var formaður félags- og tryggingamálanefndar árin 2007–2009 og sat í menntamálanefnd á sama árabili. Auk þessa hefur hann setið í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins árin 2007–2009 og í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins frá árinu 2009.

Guðbjartur hefur til margra ára tekið virkan þátt í sveitarstjórnarmálum fyrir Akraneskaupstað og sat í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1996–1998.

Alþingisvefurinn: Guðbjartur Hannesson, curriculum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum