Hoppa yfir valmynd
6. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjárlagafrumvarp 2011 – útgjöld ráðuneytisins dragast saman um 5,7%

Útgjöld félags- og tryggingamálaráðuneytisins dragast saman um 5,7% milli ára samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2011. Lækkun útgjalda felst annars vegar í beinum sparnaðaraðgerðum sem nema rúmum 3,8 milljörðum króna. Hins vegar lækka útgjöldin vegna breytinga á útgjaldaskuldbindingum um rúma 4,2 milljarða. 

Lækkun útgjalda ráðuneytisins er tvíþætt. Annars vegar lækka þau vegna hagræðingar og sparnaðaraðgerða sem nema rúmum 3,8 milljörðum króna. Hins vegar lækka útgjöldin vegna ákveðinna hagrænna eða kerfislægra breytinga um rúma 4,2 milljarða króna. Er þá átt við lækkun útgjalda vegna minnkandi atvinnuleysis og lækkun útgjalda til almannatrygginga. Lægri útgjöld til almannatrygginga taka mið af þróun útgjalda 2010 og því að örorkulífeyrisþegum hefur fjölgað minna en reiknað var með.

Stærstu útgjaldaliðir ráðuneytisins

Um 77% allra útgjalda félags- og tryggingamálaráðuneytisins árið 2011 felast í bótum almannatrygginga, atvinnuleysisbótum, fæðingarorlofsgreiðslum og greiðslum á vegum Ábyrgðasjóðs launa (alls um 93,3 milljarðar króna). Útgjöld til þessa liðar dragast saman um 6,4% frá fyrra ári.

Rekstrargjöld eru um 21% af útgjöldum ráðuneytisins (alls tæplega 25,6 milljarðar króna). Þar vega þyngst framlög til málefna aldraðra og málefna fatlaðra (um 21,9 milljarðar króna). Útgjöld til þessa liðar dragast saman um 2,7% frá fyrra ári.

Stofnkostnaður nemur um 2% útgjalda ráðuneytisins. Til hans teljast mótframlög ráðuneytisins til framkvæmda sem eru að meiri hluta fjármagnaðar af Framkvæmdasjóði aldraðra og Framkvæmdasjóði fatlaðra, auk framlaga til að greiða niður vexti af lánum til félagslegra íbúða (alls tæplega 2,6 milljarðar króna). Útgjöld til þessa liðar dragast saman um 8% frá fyrra ári.


Hagræn skipting útgjalda

    Fjárlög 2010 m.kr.   Frumvarp 2011 m.kr.   Breyting m.kr.   Breyting %   Hlut-fallsleg skipting 2011
Rekstrargjöld   26.296   25.574   -722   -2,7%   21%
Neyslu- og rekstrartilfærslur   99.749   93.341   -6.408   -6,4%   77%
Stofnkostnaður   2.783   2.560   -223   -8,0%   2%
Samtals   128.828   121.476   -7.352   -5,7%   100%

Hagræðingar- og sparnaðaraðgerðir (-3,8 milljarðar króna)

Lækkun útgjalda hjá stofnunum ráðuneytisins verður að meðaltali um 5,4% af rekstri ársins 2010. Ráðuneytið óskaði síðastliðið vor eftir tillögum frá stofnununum um lækkun útgjalda með greinargerð um áhrif þess á þjónustu og verkefni þeirra. Byggt var á þessum tillögum við gerð fjárlagafrumvarpsins. Að jafnaði dragast útgjöld saman um 9% hjá stjórnsýslustofnunum en um 5% hjá þjónustustofnunum. Horft hefur verið til þess að skerða sem minnst þjónustu við börn, ungmenni og fatlaða, líkt og síðastliðin tvö ár. Aðhaldsaðgerðirnar felast einkum í því að draga úr fasteignakostnaði og breyttum áherslum í fyrirkomulagi þjónustu. Þá verður dvalarrýmum á öldrunarstofnunum fækkað og daggjöld til öldrunarstofnana lækkuð. Ekki er gert ráð fyrir launahækkunum til starfsfólks á næsta ári að undanskildum samningsbundnum hækkunum til þeirra lægst launuðu.

Þrátt fyrir ríkar kröfur um sparnað og hagræðingu verða viðmiðunarfjárhæðir bóta almannatrygginga og atvinnuleysisbóta ekki lækkaðar. Fjárhæðir verða óbreyttar og er ekki gert ráð fyrir hækkunum vegna breytinga á verðlagi og launavísitölu. Áætluð útgjöld vegna þessara þátta nema um 82 milljörðum króna árið 2011.

Áformað er að lækka með sértækum sparnaðaraðgerðum útgjöld Fæðingarorlofssjóðs (-1 milljarður króna), Atvinnuleysistryggingasjóðs (-500 milljónir króna) og lífeyristrygginga (-700 milljónir króna) eða um 2,2 milljarða króna alls. Í ráðuneytinu er unnið að því hvernig eigi að útfæra þessar sparnaðaraðgerðir og verða þær kynntar samhliða umfjöllun um fjárlagafrumvarpið hjá nefndum Alþingis.

Hagrænar og kerfislægar breytingar (-4,2 milljarðar króna)

Gert er ráð fyrir að útgjöld til vinnumála lækki um 2,1 milljarð króna á næsta ári vegna minna atvinnuleysis. Áætlað er að atvinnuleysi næsta árs verði að meðaltali 8,3% en í forsendum fjárlaga árið 2010 var reiknað með 9,6% atvinnuleysi.

Eins og fram hefur komið stefnir í að lífeyrissjóðir muni skerða greiðslur til lífeyrisþega um allt að 7–10% á næsta ári. Komi til þessa munu útgjöld almannatrygginga hækka um rúman 1 milljarð króna. Á móti kemur að útgjöld til almannatrygginga lækka á næsta ári um rúma 3 milljarða króna, annars vegar vegna þess að örorkulífeyrisþegum hefur fjölgað minna en áætlað var og hins vegar vegna þess að lagabreytingar sem gerðar voru árið 2009 hafa lækkað útgjöld meira en reiknað var með.

Umboðsmaður skuldara

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að um 500 milljónum króna verði varið til reksturs Umboðsmanns skuldara. Reksturinn er alfarið fjármagnaður með sérstöku gjaldi sem lagt er á lánastofnanir og hefur af þeim sökum ekki bein áhrif á aðkomu ríkissjóðs.


Skipting útgjalda eftir málaflokkum ráðuneytisins

 Tafla 2   Fjárlög 2010 m.kr.   Frumvarp 2011 m.kr.   Breyting m.kr.   Breyting %   Hlut-fallsleg skipting 2011
Ráðuneyti   481   483   2   0,4%   0,4%
Húsnæðismál   466   266   -200   -42,9%   0,2%
Stjórnsýslustofnanir   566   1.057   491   86,8%   0,9%
Málefni barna   964   931   -34   -3,5%   0,8%
Málefni fatlaðra   11.171   10.724   -447   -4,0%   8,8%
Vinnumál   39.985   36.109   -3.876   -9,7%   29,7%
Almannatryggingar   60.374   57.625   -2.748   -4,6%   47,4%
Annað   566   416   -150   -26,5%   0,3%
Málefni aldraðra   14.256   13.866   -391   -2,7%   11,4%
    128.828   121.476   -7.352   -5,7%   100%

 


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum