Hoppa yfir valmynd
21. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Öruggt heimili fyrir alla

Grein Guðbjarts Hannessonar, félags- og tryggingamálaráðherra sem birtist í Fréttablaðinu, 21. október 2010.

Guðbjartur Hannesson félags- og tryggingamálaráðherraAðgerðanefnd fimm ráðherra undir forystu forsætisráðherra hefur á síðustu vikum unnið að frekari lausnum á skuldavanda heimilanna og aukinni skilvirkni gildandi úrræða. Mikilvægar úrbætur hafa verið kynntar eða verða kynntar á næstunni.

Í skjóli umboðsmanns

Umboðsmaður skuldara tók til starfa 1. ágúst. Hann er ráðgjafi og talsmaður skuldara og skal gæta hagsmuna þeirra í hvívetna séu þeir órétti beittir af hálfu fjármálastofnana eða stjórnvalda.

Nýlega var lögfest bráðabirgðaákvæði vegna greiðsluaðlögunar einstaklinga. Með því fá þeir sem sækja um greiðsluaðlögun tímabundinn greiðslufrest strax og umsókn hefur borist umboðsmanni skuldara. Óheimilt verður að ganga að skuldara með greiðslukröfur, ganga að ábyrgðarmönnum, gera fjárnám í eignum hans eða fá þær seldar nauðungarsölu meðan umsókn um greiðsluaðlögun bíður vinnslu hjá umboðsmanni. Frestunin nær til krafna sem verða til áður en umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin og gildir úrræðið til 1. júlí 2011.

Fyrning skulda

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fram frumvarp um að skuldir fólks fyrnist tveimur árum eftir gjaldþrot. Þá liggur fyrir Alþingi frumvarp um að heimild til frestunar á nauðungarsölum verði framlengd til 31. mars 2011. Verið er að skoða stöðu ábyrgðarmanna og þeirra sem hafa veitt lánsveð svo tryggja megi að ekki verði gengið að þeim vegna einstaklinga sem leita greiðsluaðlögunar.

Tvær eignir

Tekið hefur verið á vanda fólks sem situr uppi með tvær eignir og hefur ekki getað selt aðra þeirra. Sótt er um úrræðið hjá umboðsmanni skuldara.

Réttur til kaupleigu

Í vikunni var lagt fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á húsnæðislögum sem heimilar Íbúðalánasjóði að bjóða uppboðsíbúðir til leigu með kauprétti. Þetta eykur verulega húsnæðisöryggi fólks sem er illa statt fjárhagslega. Einnig fær Íbúðalánasjóður heimild til að veita óverðtryggð húsnæðislán og auknar heimildir til að veita lán til endurbóta.

Samningar um gengislán verða ógiltir

Efnahags- og viðskiptaráðherra mælir bráðlega fyrir lagafrumvarpi um að öll lán einstaklinga tengd gengi erlendra gjaldmiðla verði ólögmæt óháð orðalagi samninga. Höfuðstóll lána lækkar verulega sem getur skipt sköpum þar sem gengistryggð lán hafa valdið heimilum í landinu hvað mestum erfiðleikum. Fasteignalánum verður breytt í verðtryggð krónulán en einstaklingar geta valið hvort þeir vilji breyta láninu í óverðtryggð krónulán eða lögleg erlend lán.

Almennar aðgerðir

Sérfræðingahópur á vegum stjórnvalda með fulltrúum helstu hagsmunaaðila vinnur að útreikningum á ýmsum almennum leiðum sem ræddar hafa verið til lausnar á skuldavanda heimilanna. Niðurstöður ættu að liggja fyrir fljótlega þar sem skýrist hvaða aðgerðir er unnt að ráðast í til viðbótar þeim úrræðum sem þegar eru í boði.

Húsnæðisstefna til framtíðar

Félags- og tryggingamálaráðuneytið vinnur að mótun húsnæðisstefnu til framtíðar. Einkum er horft til þess að efla önnur úrræði en séreignaformið s.s. búseturétt, kaupleigurétt og leigumarkað. Markmiðið er að skapa fólki fjölbreytta valkosti sem tryggja húsnæðisöryggi allra, óháð efnahag.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum