Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Ný lög um heilbrigðisþjónustu taka gildi

Á morgun 1. september taka gildi ný lög um heilbrigðisþjónustu sem samþykkt voru á Alþingi síðast liðið vor. Eldri lög um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 eru að stofni til frá árinu 1973 og voru orðin úrelt og óskýr í ýmsum atriðum. Nýju lögin eru afrakstur viðamikils nefndastarfs þar sem þátt tóku m.a. fulltrúar stjórnmálaflokka, landlæknis, Læknafélags Íslands, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sjúklingasamtaka og aðila vinnumarkaðarins.

Meginmarkmið hinna nýju laga er í fyrsta lagi að mæla með skýrum hætti fyrir um grunnskipulag hins opinbera heilbrigðisþjónustukerfis. Í öðru lagi að setja ráðherra og öðrum heilbrigðisyfirvöldum og einstökum heilbrigðisstofnunum sem reknar eru af ríkinu skýran lagaramma til að starfa eftir. Í þriðja lagi að tryggja virkt eftirlit með heilbrigðisþjónustu og gæðum hennar og í fjórða lagi að skilgreina nánar stefnumótunarhlutverk ráðherra innan marka laganna og tryggja að hann hafi á hverjum tíma fullnægjandi valdheimildir til að framfylgja stefnu sinni, m.a. um skipulag heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna innan hennar, hvar hún skuli veitt og af hverjum.

Lögin byggja á því grundvallarsjónarmiði að haldið skuli uppi öflugu opinberu heilbrigðiskerfi sem allir landsmenn eigi jafnan aðgang að óháð efnahag og búsetu. Lögð er áhersla á að almenn heilbrigðisþjónusta sé veitt í heimabyggð og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Kveðið er á um hlutverk Landspítala sem aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús og hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri sem kennslusjúkrahús og sérhæft sjúkrahús.

Lög um landlækni

Þann 1. september taka einnig gildi ný lög um landlækni. Þó embætti landlæknis standi á gömlum merg eru ákvæði gildandi laga fábrotin og dreifð. Meginlagastoð fyrir starfrækslu embættisins er að finna í 3. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu. Nefndin, sem falið var að endurskoða lög um heilbrigðisþjónustu, taldi nauðsynlegt að setja ítarlegri ákvæði um landlæknisembættið og lagði hún til að sett yrðu sérlög um embættið. Í lögunum er kveðið skýrar á um stöðu og hlutverk landlæknis sem eftirlits- og stjórnsýslustofnunar, m.a. um skyldu landlæknis til að hafa faglegt eftirlit með rekstri heilbrigðisþjónustu og störfum heilbrigðisstarfsmanna. Þá er í lögunum m.a. kveðið á um hlutverk landlæknis við upplýsingasöfnun og skýrslugerð á heilbrigðissviði og um skráningar- og tilkynningarskyldu heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsmanna þegar eitthvað fer úrskeiðis við veitingu heilbrigðisþjónustu sem og um hlutverk landlæknis við gæðaþróun innan heilbrigðisþjónustunnar.

Samhliða gildistöku laganna hafa verið undirritaðar þrjár nýjar reglugerðir, þ.e. reglugerð um heilbrigðisumdæmi, reglugerð um heilsugæslustöðvar og reglugerð um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu.

Helstu breytingar frá núgildandi lögum.

Helstu breytingar sem felast í nýjum lögum um heilbrigðisþjónustu eru þessar:

  1. Landinu verður skipt í heilbrigðisumdæmi sem ákveðin eru með reglugerð. Í hverju heilbrigðisumdæmi skal starfrækt heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstofnanir sem bera ábyrgð á almennri heilbrigðisþjónustu í umdæminu.
  2. Stefnumótunarhlutverk ráðherra og heimildir hans til að hrinda stefnu sinni í framkvæmd eru styrktar.
  3. Við skipulagningu heilbrigðisþjónustu er stefnt að því að þjónustan sé ávallt veitt á viðeigandi þjónustustigi og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga.
  4. Skýrt er kveðið á um stöðu og ábyrgð forstjóra heilbrigðisstofnana sem æðstu yfirmanna hverrar stofnunar. Ennfremur er kveðið á um faglega ábyrgð framkvæmdastjóra lækninga og hjúkrunar á þjónustu stofnunarinnar gagnvart forstjóra.
  5. Kveðið er á um stöðu og hlutverk Landspítala sem aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús og Sjúkrahússins á Akureyri sem kennslusjúkrahús og sérhæft sjúkrahús.
  6. Kveðið er á um að ráðherra geti heimilað sjúkrahúsum og sérhæfðum heilbrigðisstofnunum að skipuleggja og veita ósjúkratryggðum einstaklingum heilbrigðisþjónustu á einkaréttarlegum grundvelli. Heimildin felur í sér möguleika til ?útflutnings? þeirrar heilbrigðisþjónustu sem veitt er hér á landi innan hins opinbera heilbrigðisþjónustukerfis.
  7. Kveðið er á um að óheimilt sé að hefja rekstur heilbrigðisþjónustu nema fyrir liggi staðfesting landlæknis á því að fyrirhugaður rekstur uppfylli skilyrði heilbrigðislöggjafar og faglegar kröfur.
  8. Skýrt er kveðið á um að ráðherra fari með umboð ríkisins til samningsgerðar um heilbrigðisþjónustu.
  9. Ráðherra er veitt heimild til að takmarka samningsgerð við hluta þeirra aðila sem veitt geta þá þjónustu sem samið er um ef framboð af henni reynist meira en þörf er á eða unnt er að semja um með hliðsjón af fjárheimildum.
  10. Kveðið er á um heimild heilbrigðisstofnana til að gera samninga við aðrar stofnanir eða heilbrigðisstarfsmenn, með leyfi ráðherra, um ákveðna þætti í þeirri almennu heilbrigðisþjónustu sem þeim ber að veita.
  11. Kveðið er skýrar á um heimild ráðherra til að bjóða út bæði rekstur og kaup á heilbrigðisþjónustu.

Helstu breytingar sem felast í nýjum lögum um landlækni eru:

  1. Skýrar er kveðið á um stöðu og hlutverk landlæknisembættisins sem eftirlits- og stjórnsýslustofnunar undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
  2. Skýrari ákvæði eru um heimildir landlæknis til að halda heilbrigðisskrár á landsvísu og til skýrslugerðar á heilbrigðissviði.
  3. Skýrar er kveðið á um eftirlit landlæknis með því að heilbrigðisþjónusta uppfylli faglegar kröfur á hverjum tíma.
  4. Heimildir almennings til að beina kvörtunum til landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu eru útfærðar og styrktar.
  5. Kveðið er á um skyldu þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu til að skrá óvænt atvik sem verða við veitingu þjónustunnar og um tilkynningaskyldu til landlæknis þegar alvarleg atvik verða.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum