Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Meginskipulag heilbrigðisráðuneytis breytt

Meginskipulagi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hefur verið breytt. Þetta er til samræmis við aukna áherslu á stefnumótun ráðuneytisins.

Nýtt meginskipulag er liður í endurskipulagningu ráðuneytisins sem tekur mið af þeim áherslum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, að styrkja stefnumótunarhlutverk ráðuneytisins. Meginbreytingin felst í að skrifstofum ráðuneytisins hefur verið skipt í verkefnasvið sem hvert um sig hefur sitt skilgreinda hlutverk.

Einfaldað meginskipulag heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins á að greiða fyrir samskiptum ráðuneytisins og fjölmargra undirstofnana þess, auka skilvirkni í starfseminni, efla samvinnu skrifstofa í umfangsmiklum og flóknum úrlausnarefnum og skilgreina að nýju ábyrgð skrifstofanna.

Nýtt meginskipulag ráðuneytisins þýðir að starfsemi þess skiptist í yfirstjórn, þrjú svið og þjónustuskrifstofu. Sviðin þrjú sem hér eru nefnd eru svið stefnumótunar heilbrigðismála, svið fjármála og rekstrar, og svið laga og stjórnsýslu. Skrifstofur ráðuneytisins heyra hver undir sitt svið.

Sviðaskipting ráðuneytisins byggir á því að ráðuneytisstjóri felur einum skrifstofustjóra á hverju sviði tiltekna yfirumsjón verkefna og er þeim ætlað að samræma stefnu og starf ráðuneytisins á hverju verksviði fyrir sig. Með aukinni samræmingu er ætlunin að laga starfsemi ráðuneytisins að breyttum áherslum og kröfum sem gerðar eru til þess, m.a. vegna þátta sem felast í nýlega samþykktum heilbrigðisþjónustulögum og breytinga sem boðaðar eru í næstu framtíð í sáttmála ríkisstjórnarinnar.

Berglind Ásgeirsdóttir er ráðuneytisstjóri, en þær þrjár sem stýra verkefnasviðum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins eru: Ragnheiður Haraldsdóttir hefur yfirumsjón með stefnumótun í heilbrigðismálum, Svanhvít Jakobsdóttir hefur yfirumsjón með fjármálum og rekstri og Vilborg Þ. Hauksdóttir hefur yfirumsjón með verkefnum laga-og stjórnsýslu.

Nýtt meginskipulag tekur gildi í dag.

Sjá nánar skipurit ráðuneytisins



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum