Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Vistunarmat samræmt - nefndum fækkað úr fjörutíu í sjö

Heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerð um vistunarmat nr 1262/2007 í samræmi við breytingar á lögum um málefni aldraðra. Gerð vistunarmats vegna hjúkrunarrýma flyst frá þjónustuhópum aldraðra, sem störfuðu á vegum sveitarfélaga, til sérstakra vistunarmatsnefnda sem ráðherra skipar og gegna því hlutverki eingöngu að meta þörf fólks fyrir vistun í hjúkrunarrými, óháð aldri.

Þjónustuhópar aldraðra sem fram að þessu hafa sinnt vistunarmatinu eru um 40 talsins víðs vegar um landið. Vistunarmatsnefndirnar verða hins vegar mun færri, eða sjö talsins, og falla starfssvæði þeirra að heilbrigðisumdæmum landsins eins og þau eru skilgreind í reglugerð um heilbrigðisumdæmi, nr. 785/2007.

Markmið með breytingunni er að stuðla að auknu samræmi við gerð vistunarmats og tryggja eins og kostur er faglegar og samanburðarhæfar niðurstöður vistunarmats um allt land. Breytingin er gerð m.a. með hliðsjón af ábendingum Ríkisendurskoðunar í stjórnsýsluúttekt á þjónustu við aldraða.

Helstu breytingar sem felast í reglugerðinni eru:

  1. Vistunarmatsnefndum er fækkað úr 40 í sjö og fylgja heilbrigðisumdæmum.
  2. Eftirlitsnefnd um vistunarmat aldraðra verður lögð niður og ábyrgð á vistunarmati og framkvæmd þess flyst frá heilbrigðisráðuneyti til landlæknisembættisins.
  3. Til að auka áreiðanleika vistunarmatsins verður krafist ýtarlegri upplýsinga en verið hefur fram að þessu.
  4. Vistunarmatsnefndir munu meta alla sem þurfa á varanlegri vist í hjúkrunarrými að halda, óháð aldri.
  5. Sem fyrr munu stjórnir stofnana taka ákvörðun um hverjir vistaðir eru í hjúkrunarrýmum á viðkomandi stofnun, en ákvörðunarvald þeirra er þrengt frá því sem áður var þegar ríkið greiðir fyrir rýmin. Breytt fyrirkomulag felst m.a. í því að þegar hjúkrunarrými losnar á stofnun skal vistunarmatsnefnd veita viðkomandi stofnun aðgang að upplýsingum um þá þrjá sem óskað hafa eftir vistun þar og metnir eru í mestri þörf umsækjenda fyrir hjúkrunarrými samkvæmt niðurstöðum vistunarmatsnefndar. Ákvörðun um þessa þrjá skal byggð á stigafjölda samkvæmt vistunarmati.

Í vistunarmatsnefndum eru tveir fulltrúar heilbrigðisráðherra og einn fulltrúi tilnefndur af félagsmálráðherra.
Starfsstöðvar vistunarmatsnefnda eru:

  • Í Heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
  • í Heilbrigðisumdæmi Vesturlands á Heilsugæslustöðinni í Borgarnesi
  • í Heilbrigðisumdæmi Vestfjarða hjá Heilbrigðisstofnuninni á Ísafirði
  • í Heilbrigðisumdæmi Norðurlands hjá Heilsugæslunni á Akureyri
  • í Heilbrigðisumdæmi Austurlands hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands
  • í Heilbrigðisumdæmi Suðurlands hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands
  • í Heilbrigðisumdæmi Suðurnesja hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum