Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Fimm sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir gera samninga

Í dag var undirritað víðtækt samkomulag milli Landspítala - háskólasjúkrahúss og fjögurra sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana um tilfærslu verkefna frá Landspítala til viðkomandi stofnana. Forstjórar stofnananna undirrituðu samkomulagið sem Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, staðfesti að lokinni undirritun.

Stofnanirnar sem taka að sér aukin verkefni frá Landspítala eru Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS), Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi (SHA), Heilbrigðisstofnun Suðurlands (Hsu) og St. Jósefsspítalinn og Sólvangur í Hafnarfirði (STJS).

Samkomulagið sem undirritað var byggist á lögum um heilbrigðisþjónustu og er gert í samræmi við tilmæli heilbrigðisráðuneytis vegna viðbótarfjármuna í fjárlögum ársins 2008, þar sem gengið er út frá að styrkja núverandi rekstur heilbrigðisstofnana á suðvesturhorninu og gera þeim kleift að taka við auknum verkefnum.

Markmiðið er fyrst og fremst að stuðla að betri nýtingu fagþekkingar á öllum stofnununum, að heilbrigðisþjónusta verði veitt í ríkari mæli í heimabyggð, að auka rafræn samskipti milli heilbrigðisstofnana og að efla með þessu sameiginlega þjónustu sem íbúum á svæðinu stendur til boða.

Á hverjum degi leitar fjöldi sjúklinga til Landspítala vegna margvíslegra bráðavandamála. Sjúklingar þurfa mislangan tíma til að ná sér eftir bráð veikindi og hafa aldraðir meiri þörf fyrir endurhæfingu að bráðameðferð lokinni en aðrir sjúklingar. Brýnt er að hafa alltaf næg rými tiltæk fyrir bráðaþjónustu spítalans, en Landspítalinn er aðalsjúkrahús landsins og umdæmissjúkrahús höfuðborgarsvæðisins. Þessu víðtæka samstarfi er annars vegar ætlað að tryggja rými vegna bráðaþjónustu LSH og þjónustu sjúklinga eftir alvarleg veikindi.

Samkvæmt samkomulaginu er gert ráð fyrir, svo dæmi sé tekið að efla til muna bráðaþjónustu HSS, en einnig er gert ráð fyrir að HSS annist sjúklinga með lögheimili á Suðurnesjum, sem þurfa á líknandi meðferð að halda eða bíða eftir hjúkrunarrými á sjúkrahúsi. Einnig er gert ráð fyrir að efla þjónustu á SHA sérstaklega á sviði öldrunarendurhæfingar, almennra lyflækninga, skurðlækninga og bæklunaraðgerða, og að efla þjónustu STJS sérstaklega á sviði meltingarsjúkdóma, skurðlækninga og á sviði sérhæfðrar öldrunarþjónustu.

Þá er einnig gert ráð fyrir að efla bráðaþjónustu HSu með opnun nýrrar slysa- og bráðamóttöku og draga úr flutningum sjúklinga frá Suðurlandi til LSH. Einnig er gert ráð fyrir að HSu annist sjúklinga með lögheimili á Suðurlandi, sem þurfa á líknandi meðferð að halda eða bíða eftir hjúkrunarrými, en þurfa að dvelja á sjúkrahúsi.

Annar þáttur í starfsemi stofnananna sem gerðu samkomulagið í dag er að samræma sumarstarfsemi allra stofnananna eins og kostur er. Þetta verður gert með samráðsfundum framkvæmdastjóra lækninga og hjúkrunar allra stofnana með það að markmiði að nýta sjúkrarými þeirra sem best. Gert er ráð fyrir að áætlun um sumarstarfsemi stofnananna liggi fyrir eigi síðar en 1. apríl nk.

Gert er ráð fyrir að faglegur og rekstrarlegur árangur af þessu fyrirkomulagi verði metinn ársfjórðungslega af báðum aðilum, í fyrsta skipti í byrjun apríl 2008 og síðan á þriggja mánaða fresti. Niðurstöðum úr því mati skal skilað til heilbrigðiráðuneytis eigi síðar en 15. apríl, 15. júlí, 15. október 2008 og 15. janúar 2009.

Samningar sem undirritaðir voru á pdf formi. ATH að skjölin opnast í nýjum glugga

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum