Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra vill opnari norrænan lyfjamarkað

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, gerði norrænan lyfjamarkað að umtalsefni á fundi heilbrigðisráðherra Norðurlandanna í dag. Sameignleg bóluefnaframleiðsla var efst á formlegri dagskrá norrænu heilbrigðisráðherranna sem áttu fund í Stokkhólmi fyrr í dag. Heilbrigðisráðherrar Norðurlandanna lögðu áherslu á áframhaldandi náið samstarf varðandi viðbúnað vegna alheims inflúensufaraldurs og hyggjast áfram kanna möguleika á samstarfi um bóluefnaframleiðslu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, gerði lyfjamál að sérstöku umræðuefni á fundi norrænu ráðherranna, en ráðherra tók málið fyrst upp á fundi norrænu ráðherranna sem haldinn var í tengslum við þing Norðurlandaráðs sem haldið var í Osló sl. haust. Á fundinum í Svíþjóð gerði ráðherra starfsbræðrum sínum grein fyrir könnun starfshóps sem settur var á laggirnar eftir Oslóarfundinn. Vinnuhópurinn kom saman í fyrsta skipti á Íslandi í janúar og ræddi þá möguleika sem eru á opnun lyfjamarkaðarins og möguleikana sem felast í samvinnu um útgáfu markaðsleyfa.

Jafnframt var ákveðið að setja af stað reynsluverkefni Íslands og Svíþjóðar um samvinnu við að veita markaðsleyfi fyrir lyf með gagnkvæmri viðurkenningu (Mutual Recognition and Decentralised Procedure). Þetta samstarf Íslands og Svíþjóðar gerir ráð fyrir því að íslensk stjórnvöld samþykki mat Svía á umsókninni en þar er verið opna möguleika sem Guðlaugur Þór sagðist binda miklar vonir við. Hann greindi starfsbræðrum sínum frá því að starfshópurinn myndi skila lokaskýrslu fyrir sumarbyrjun, en starfshópurinn er undir formennsu Íslands og kannar forsendur fyrir sameiginlegum norrænum lyfjamarkaði.

Guðlaugur Þór Þórðarson greindi á fundinum frá viðræðum sem hann hefur átt við háttsetta aðila hjá ESB, EFTA og ESA, en þessar viðræður hafa nú leitt til þess að Evrópusambandið hefur sett á laggirnar samráðshóp með fulltrúum Eistlands, Íslands, Kýpur, Möltu og Slóveníu til að finna lausnir á vanda lítilla markaðssvæða. Þá greindi ráðherra sömuleiðis frá því að vinnuhópur á vegum forstjóra lyfjastofnana EES hefði verið að skoða vandamál af þessu tagi og sé þessa dagana að skila tillögum sínum til framkvæmdastjórnarinnar.

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, sagði í ræðu sem hann hélt fyrr í dag að hann legði mikla áherslu á að Norðurlöndin færu ítarlega yfir möguleikana á sameiginlegum lyfjamarkaði: “Sameiginlegur norrænn lyfjamarkaður er spennandi verkefni, en ljóst er að Ísland hefur hér hvað mestra hagsmuna að gæta enda minnsta markaðssvæðið, þar eru fæst lyf á markaði, sérstaklega samheitalyf. Fjölmargir þættir getað stuðlað að opnun lyfjamarkaðarins, til dæmis sameiginleg markaðsleyfi, póstverslun, sameiginleg útboð, og sveigjanlegri reglur um texta fylgiseðla svo eitthvað sé nefnt. Um þessa þætti ættum við að geta náð samstöðu um á norrænum vettvangi.”



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum