Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Nýbreytni í þjónustu við aldraða

Guðlaugur Þór og María Ólafsdóttir
Gudlaugur Þór og María Ólafsdóttir

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, og María Ólafsdóttir, yfirlæknir Heilsuverndarstöðvarinnar ehf. undirrituðu í dag samning um rekstur 20 skammtíma hvíldarrýma fyrir aldraða skjólstæðinga heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu og 30 dagvistarrýma þar sem áhersla verður lögð á endurhæfingu.

Um er að ræða tilraunaverkefni til sex mánaða og er gert ráð fyrir því að starfsemin hefjist í húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg í marsbyrjun. Á samnignstímanum verður unnið að útboði á grundvelli þeirra upplýsinga sem fást af verkefninu.

Þjónustan sem Heilsuverndarstöðin ehf. veitir samkvæmt samningnum er ætluð skjólstæðingum heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu. Rétt til vistunar eiga aldraðir einstaklingar sem að mati heimahjúkrunar þurfa tímabundna vistun vegan dægurvillu, til að hvíla umönnunaraðila, vegna skyndilegra veikinda eða ef sá sem annast viðkomandi forfallast skyndilega.

Boðið verður upp á skammtíma vistun og er áhersla lögð á endurhæfingu. Hugsunin er sú að með því að leggja áherslu á endurhæfinguna sérstaklega er komið til móts við þá eindregnu ósk aldraðra að eiga þess kost að búa heima hjá sér eins lengi og kostur er.

Boðið verður upp á sveigjanlegan vistunarmöguleika í hvíldarrýmum með vistun frá einum sólarhing í allt að fjórar vikur. Stuðningur við einstaklinginn skal samkvæmt samningnum miðast við að viðhalda getu viðkomandi og virkni eins og kostur er. Áhersla er lögð á að veita þjónustu á forsendum einstaklingsins með hans eigin þátttöku, og að veita hjúkrun, aðhlynningu, þjálfun, læknishjálp og hjálpartæki á hans eigin forsendum til þess að auðvelda viðkomandi að takast á við breyttar aðstæður dagslegs lífs.

Þjónusta dagdvalar er einstaklingsmiðuð og er gengið út frá að einstaklingar fái að vera í dagdvöl með endurhæfingu í tiltekinn tíma og að hámarki 8 vikur. Þjónusta fyrir dagdvöl með endurhæfingu verður opin frá kl. 08.00 - kl. 19.00. Þannig verður einstaklingum boðið upp á að hefja dagdvöl árla morguns og fram undir hádegi. Þeim sem fara heim um kl. 19.00 verður boðið upp á að snæða kvöldverð og að taka lyf sín áður en dagdvöl lýkur. Heimilt verður að hafa opið um helgar. Um nýmæli er að ræða í opnunartíma dagdvalar.

Þjónustan var boðin út á vegum Ríkiskaupa sem þróunarverkefni. Eitt tilboð barst í þjónustuna frá Heilsuverndarstöðinni ehf. og var í framhaldinu gengið til samninga við Heilsuverndarstöðina ehf sem útvegar húsnæði fyrir starfsemina ásamt öllum nauðsynlegum innréttingum og búnaði.

Frá undirritun samnings um nýbreytni í þjónustu við aldraða Gísli Ólafsson og Guðlaugur Þór

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum