Hoppa yfir valmynd
14. mars 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Heilsugæslan og Velferðarsviðs borgarinnar vinna saman

Í dag var undirritaður leigusamningur um nýtt húsnæði fyrir Heilsugæslustöð Árbæjar.

Húsnæðið er að Hraunbæ 115, leigusali er Faghús ehf, Akralind 6, 201 Kópavogi og er stærð hins leigða húsnæðis er 1510 fermetrar. Miðað er við að húsnæðið verði afhent í síðasta lagi 1. desember nk. og er leigusamningurinn til 20 ára.

Með tilkomu hins nýja húsnæðis verður unnt að auka starfsemi stöðvarinnar, en í því verður starfsaðstaða fyrir allt að 10 sérfræðinga í heimilislækningum auk samsvarandi fjölda annarra starfsmanna. Stöðin mun því með flutningi í hið nýja húsnæði geta aukið þjónustuna við íbúa í Árbæ, Norðlingaholti og Grafarholti. Um síðustu áramót voru íbúar svæðisins rúmlega 15 þúsund og hefur fjölgað hin síðari ár.

Í tilefni þess að bæði Heilsugæslan í Árbæ og Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts flytjast undir sama þak í nýju og sérhönnuðu húsi á hausti komanda, hefur verið skipuð fjögurra manna samráðsnefnd beggja aðila til að móta nánara og formfastara samstarf þjónustuþáttanna með hagsmuni sameiginlegra skjólstæðinga að leiðarljósi. Bæði heilsugæsla og velferðarþjónusta eru dæmi um mikilvæga nærþjónustu við íbúa sama svæðis og því þykir eðlilegt að koma á nánara samstarfi þjónustuþáttanna, bæði hvað varðar skipulag á þjónustu við sameiginlega skjólstæðinga og einnig þjónustuframboð almennt.

Markmið þessa verkefnis er meðal annars að:

  • auka skilvirkni þjónustuþáttanna
  • auka gæði þjónustunnar
  • kanna mögulega á samþættingu þjónustunnar
  • kanna lögformlegan og hagrænan grundvöll fyrir nánara samstarfi heilsugæslunnar og Velferðarsviðs, eins og t. d. sameiginlega móttöku skjólstæðinga og aðra nánari samnýtingu húsnæðis.

Samráðsnefndina skipa:

Sólveig Reynisdóttir framkv.stj. Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts

Þorgeir Magnússon deildarstjóri/sálfræðingur

Margrét Gunnarsdóttir hjúkrunarstjóri Heilsugæslu Árbæjar

Haraldur Ó. Tómasson, læknir

Samráðsnefndin mun skila áfangaskýrslu til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar fyrir lok september 2008.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum