Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Heilsuvernd á tímum loftslagsbreytinga - Alþjóðaheilbrigðisdagurinn 7. apríl 2008

Alþjóðaheilbrigðisdagurinn er að venju haldinn 7. apríl ár hvert í aðildarríkjum Alþjóðaheilbrigðis-málastofnunarinnar (WHO). Einkunnarorð dagsins í ár eru Heilsuvernd á tímum loftslagsbreytinga (Protecting Health from Climate Change). Markmiðið er að beina athyglinni að áhrifum loftslagsbreytinga á heilsufar í heiminum og undirbúa aðildarríkin betur að mæta þeim ógnunum sem þær kunna að hafa í för með sér á komandi tímum.

Aðalforstjóri WHO, dr. Margaret Chan, mælist til þess að alþjóðasamfélagið láti heilsu fólks og velferð ganga fyrir öðru í mótun stefnu sinnar varðandi viðbrögð við loftslagsbreytingum. Jafnframt telur hún mikilvægt að meiri kraftur verði settur í aðgerðir á sviði heilsuverndar í samræmi við Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Með auknu samstarfi ættu ríkisstjórnir að geta búið sig betur undir að fást við heilsufarsvandamál sem tengjast loftslagsbreytingum staðbundið sem og á heimsvísu. Dæmi um sameiginlegar aðgerðir eru aukið eftirlit og stjórnun sóttvarna, öruggari nýting á minnkandi vatnsforða heimsins, og samþætting aðgerða þegar lýðheilsu er ógnað.

Á þessari öld er því spáð að meðalhiti á jörðinni geti hækkað um 1–3,5°C vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Þessi hitabreyting er mun meiri en náttúrulegar breytingar sem orðið hafa á loftslagi síðustu þúsund árin. Þessar breytingar og ýmislegt annað í umhverfinu munu áreiðanlega hafa áhrif á heilsufar fólks víða um heim. Spádómar varðandi Ísland gera ráð fyrir að áhrifin á heilsufar þjóðarinnar verði með minna móti. Ýmislegt bendir þó til þess að heilbrigðiskerfið verði að vera tilbúið að mæta aukningu ákveðinna heilsufarsvandamála á komandi áratugum, svo sem frjókornaofnæmi og öðrum öndunarfærasjúkdómum.

                                  Fundur mánudaginn 7. apríl í Norræna húsinu kl. 15:00 – 16:40

                                   Fundarstjóri: Gunnar Alexander Ólafsson, stjórnsýslufræðingur.

15:00 – 15:10          Ávarp.

                                   Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra.

15:10 – 15:30          Áhrif hlýnunar andrúmsloftsins á heilsufar í heiminum.

                                   Haraldur Briem, sóttvarnalæknir.

15:30 – 15:50          Veðurfarsbreytingar og lýðheilsa á norðurslóðum.

                                   Níels Einarsson, forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.

15:50 – 16:10          “Loftsgæði og heilsa – niðurstöður úr Evrópukönnuninni.”

                                   Þórarinn Gíslason, prófessor og yfirlæknir.

16:10 – 16:40          Umræður og fyrirspurnir.

                                   Auk fyrirlesara: Sigurður Guðmundsson, landlæknir,
                                                                Kristín Erla Harðardóttir, framkvæmdastjóri Mannfræðistofnunar HÍ, og
                                                                Eyþór Hreinn Björnsson, sérfræðingur.

16:40                         Dagskrárlok.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum