Hoppa yfir valmynd
8. maí 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Biðlistum eytt á þjónustusvæði Sjúkrahússins á Akureyri

Saminganefnd heilbrigðisráðherra og Sjúkrahúsið á Akureyri hafa gert fjóra samninga um læknisverk. Tveir þeirra eiga að eyða biðlistum eftir aðgerðum. Samningarnir eru um liðskiptaaðgerðir, krossbandaaðgerðir, sérfræðiþjónustu í efnaskipta- og innkirtlalækningum og um sérfræðiþjónustu í taugalækningum.

Samningar sem skrifað var undir á ársfundi Sjúkrahússins á Akureyri eru til marks um breyttar áherslur varðandi framboð og fjármögnun heilbrigðisþjónustu sem mun koma fram í ríkari mæli í næstu framtíð.

Í samningunum er greitt fast verð fyrir hvert unnið verk og fylgir fjármagn þannig sjúklingi og framlög ráðast af því magni þjónustu sem veitt er. Þá er þjónustukaupum samkvæmt samningunum ætlað að veita þjónustu þar sem þörfin er brýnust og ávinningurinn mestur og til að færa þjónustu sem næst notendum. 

Samninganefnd heilbrigðisráðherra og Sjúkrahúsið á Akureyri hafa undanfarna mánuði átt í mjög góðu samstarfi þar sem sjúkrahúsið hefur gert grein fyrir þjónustuþörf á þjónustusvæði sínu og möguleikum sínum til að sinna þessari þörf og kostnaði því samfara. Samninganefndin hefur gert grein fyrir markmiðum heilbrigðisráðherra varðandi samninga um þjónustukaup þar sem lögð er áhersla á að eyða biðlistum og færa þjónustu sem næst notendum.

Á grundvelli þessara samskipta hafa náðst samningar sem miða að því að nýta krafta sjúkrahússins eins og best var talið unnt til að auka þjónustu þess í takt við stefnumótun heilbrigðisyfirvalda. Niðurstaða samningaumleitananna eru fjórir samningar sem allir miða að því að ná fram tilteknum markmiðum.   

Stærsti samningurinn er vegna liðskiptaaðgerða. Er hann til marks um þá áherslu sem heilbrigðisráðherra leggur á að eyða biðlistum svo fljótt sem verða má. Samningurinn á að tryggja að sjúklingar á þjónustusvæði sjúkrahússins þurfa ekki að leita annað eftir þjónustu. Fjöldi aðgerða er það mikill að möguleiki er á að þjónusta sjúklinga utan þjónustusvæðisins.

Nú bíða um 130 sjúklingar eftir liðskiptaaðgerðum á þjónustusvæði sjúkrahússins.  Með því að stytta og eyða biðtíma eftir aðgerðum af þessu tagi batna lífsgæði sjúklinganna umtalsvert og gerir mörgum kleift að komast fyrr út í atvinnuliífið.

Samningur um liðskiptaaðgerðir er til tveggja ára og á þeim tíma tekur sjúkrahúsið að sér að framkvæma allt að 160 liðskiptaaðgerðir.  Í ljósi fjölda á biðlista mun þessi fjöldi aðgerða eyða þeim biðlista sem nú er til staðar. Kostnaður vegna þessara aðgerða er nálægt 50 milljónir króna á ári þau tvö ár sem samningurinn nær til.  

Samningur um krossbandaaðgerðir miðar fyrst og fremst við að færa þjónustu í heimahérað og spara sjúklingum þannig bæði ferðakostnað, tíma og óhagræði.  Fram að þessu hafa sjúklingar þurft að leita til Reykjavíkur vegna þessar aðgerða og ljóst að samningurinn mun spara notendum umtalsverðar fjárhæðir og ómak. Samningurinn er til tveggja ára og tekur sjúkrahúsið að sér að veita allt að 100 aðgerðir á  samningstímanum eða 50 á ári.  Kostnaður vegna samningsins er um 15 milljónir króna þau tvö ár sem hann nær til.

Þá eru tveir smærri samningar undirritaðir, einnig til tveggja ára, annarsvegar um sérfræðiþjónustu í efnaskipta- og innkirtlalækningum og hinsvegar um sérfræðiþjónustu í taugalækningum.  Þessir samningar eru litlir að kostnaðarlegu umfangi og miða fyrst og fremst að því að fylla þjónustuframboð sjúkrahússins þannig að þjónusta sé í ríkari mæli í boði í heimahéraði.  Árlegur kostnaður vegna þeirra beggja er um 4 milljónir króna.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum