Hoppa yfir valmynd
10. júní 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Alnæmisráðstefna Sameinuðu þjóðanna í New York

Guðlaugur Þór í pontu á Alnæmisráðstefnu SÞ
Guðlaugur Þór í pontu á alnæmisráðstefnu SÞ í New York

Heilbrigðisráðherra situr nú ráðherrafund Sameinuðu þjóðanna um HIV- smit og alnæmi sem haldinn er í dag og á morgun í New York.

Fundinn sækja tæplega tvö hundruð heilbrigðisráðherrar hvaðanæva úr heiminum og er viðfangsefni þeirra að ræða hvernig gengið hefur að ná þeim markmiðum sem Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) settu sér og aðildarríkjunum í því skyni að draga úr HIV smiti í heiminum. Markmiðunum var lýst í Þúsaldarmarkmiðum SÞ og í sérstakri HIV- eða alnæmisyfirlýsingu SÞ.

Á fundinum í dag gerði Ban Ki-moon grein fyrir helstu niðurstöðum skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar birtu nýverið og varpa ljósi á það hve alvarlegt ástandið er. Þar kemur meðal annars fram að um 33 milljónir manna voru smitaðir af HIV veirunni í lok liðins árs, hálf önnur milljón manna smitaðist í fyrra og rúmlega tvær milljónir manna létust úr alnæmi 2007.

68 af hundraði þeirra sem voru smitaðir af HIV-veirunni í árslok 2007 búa sunnan Sahara, þar eru heimkynni 90% þeirra barna sem eru smituð af HIV og af þeim sem deyja úr alnæmi búa 76% sunnan Sahara.

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, fagnaði í ræðu sinni á ráðstefnunni í dag þeim árangri sem náðst hefur í baráttunni gegn alnæmi en benti jafnframt á mikilvægi þess að koma í veg fyrir að menn smituðust og að þeir sem smitaðir væru fengu viðhlítandi meðferð. Lagði ráðherra áherslu á mikilvægi þess í þessu sambandi að lækka verð lyfjanna sem smitaðir nota.

New York alnæmi

Hjálmar W. Hannesson, fastafulltrúi Íslands hjá SÞ, Hanna Katrín Friðriksson, Guðlaugur Þór Þórðarsson, heilbrigðisráðherra, Davíð Á. Gunnarsson, Emil Breki Hreggviðsson, sendiráðunautur hjá fastanefnd Íslands hjá SÞ á New York fundinum.


Ræða ráðherra

Vefur ráðherrafundar SÞ í New York (opnast í nýjum glugga)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum